Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Var það ekki Olga Guðrún Árnadóttir sem söng fyrir áratugum um Ryksuguna á fullu, sem át alla drullu? Þennan brag hafa málararnir okkar sungið af miklum krafti undanfarna viku, að vísu með breyttum breytanda, í stað skúra, skrúbba, bóna segja þeir: „Skafa, nudda, skrapa“ og árangurinn lætur ekki á sér standa.
Veggurinn í gömlu stofunni, sem var svo hræðilega ljótur og furðulega grá-græn-brúnn (ef sá litur er til) birtist mér alveg í nýju ljósi þegar búið var að fjarlægja “litinn“ sem reyndist aðeins eitt lag af málningu eða einhverns konar fernis en hinir veggirnir eru panelklæddir og með mörgum málningarumferðum. Timbrið í þessum vegg er mjög gamallegt, láréttir listar skipta honum í jafnhá bil en timbrið milli listanna er mjög misbreitt, allt frá ca 20 niður í 2 cm á breidd, alveg eins og veggurinn væri samansettur úr afgöngum.
Við hjónin erum sjálfsagt ekki ein um að hafa flett ýmsum bókum að undanförnu og gjarnan hafa orðið fyrir valinu bækur um gamlar byggingar á Íslandi. Nú erum við að blaða í Kirkjum Íslands. Mig rak í rogastans þegar ég sá myndir innan úr Þingvallakirkju. Á mynd innan úr kirkjunni frá því fyrir aldamótin 1900 sá ég ekki betur en kominn væri veggurinn „okkar“. Í texta stendur: Austurgafli er deilt í átta reiti á langveginn en í þrjá reiti frá gólfi til hvolfstóls…. Klæðningsborðin eru misbreið, allt að 20 cm þar sem þau eru breiðust og standast hvergi á milli reita. Svei mér þá,þarna er komin lýsingin á veggnum „okkar“.
Þessi stofuveggur hafði verið klæddur með þykkum, ljósbláum eða blámáluðum „gólfdúk“ einhvern tímann og á hann hafði Ólafur Túbals málað stærðar mynd og aðra minni á veggbút við hlið langveggjarins, búið var að fjarlægja báðar myndirnar þegar Múlakot kom í okkar eigu fyrir 20 árum. Okkur var sagt að stóra myndin hafi farið á Skóga, en sú minni í einkaeiga, líklega á Hellu.
Nú muna sjálfsagt margir eftir þessum myndum, en gaman væri að fá eitthvað að heyra um þær.
Góð kveðja frá Múlakoti