Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Vinir Múlakots hafa að undanförnu fengið fréttir af framvindu málningarvinnu í gamla bænum í Múlakoti. Nú er verið að leggja lokahönd á stofuna.
Það rifjaðist upp fyrir okkur hjónunum að á gamla veggnum í stofunni, þessum sem gerður er úr misbreiðu timburborðunum, voru, þegar við keyptum jörðina, leifar af bláleitum pappa. Reynir, sonur þeirra Láru og Ólafs, sagði okkur að þarna hefðu verið málverk máluð á vegginn, sem hann hefði fengið Jónda, Jón Kristinsson, listamann og bónda í Lambey í Fljótshlíð, til að skera niður. Reynir gaf lítið út á hvert málverkin hefðu farið en annað hefði víst farið á Skóga og hitt líklega á Hellu.
Okkur datt í hug að gaman væri að reyna að hafa upp á málverkunum og reyna láta gera eftirmyndir til að setja upp í stofunni. Vandinn var hversu langt er liðið síðan málverkin voru fjarlægð og farið að fækka þeim sem mundu eftir málverkunum og hvað myndirnar sýndu.
Andri, forstöðumaður Skógasafns, sem er í stjórn Sjálfseignastofnunarinnar, brást vel við og hóf leit. Að vísu héldum við fyrst að á Skógamyndinni væri Bleiksárgljúfur, sem ruglaði leitina, en Andri gafst ekki upp og hann fann málverkið upprúllað, myndefnið er Eyjafjallajökull séður frá Múlakoti, og stærðin ekkert smáræði, 2,1 x 1,6 metrar.
Hin myndin hlaut að vera miklu minni og á henni sást einhver foss. Ég hafði samband við einu manneskjuna sem ég vissi af og hafði tengsl við Múlakot og Hellu, Sjöfn Árnadóttur, sem var hér sumarstúlka tvö sumur á sjötta áratugnum, en Sjöfn skrifaði mjög skemmtilega grein um þann tíma. Sú grein hefur þegar birst í greinaflokknum Minningar frá Múlakoti. Og viti menn, þau hjónin, Filippus og Sjöfn keyptu minni myndina, sem Selma dóttir þeirra, fékk síðar í fertugsafmælisgjöf. Og viti menn, þar er myndefnið fossinn Sídjarfur í Bleiksárgljúfri!
Já, gaman væri að láta gera eftirmyndir af þessum verkum og koma þeim upp í stofunni í elsta húsinu, litlu stofunni.
Góð kveðja frá Múlakoti