Nú langar mig til að segja VORIÐ er komið, blankalogn og sólin skín sem aldrei fyrr, en ég veit svo sem að febrúar er ekki liðinn hvað þá meira.
En ég get þó fullyrt að fyrstu vorboðarnir eru komnir, já það er meira að segja rúm vika frá því að ég sá fyrsta vorboðann minn. Já, fuglinn er kominn í bergið. Fyrst kom einn og virtist ósköp einmanna og lúinn þar sem hann húkti á vinsælasta hreiðurstæðinu í berginu. En strax morguninn eftir hafði hann fengið félagsskap í hreiðrið og nú iðar allt af fjöri og fluglistir iðkaðar, þótt varla sé hægt að tala um fuglasöng þar sem ú-ið er.
Ég hef verið að svipast eftir Múkkanum síðan á Bóndadaginn, sem bar að þessu sinni upp á 22. janúar, en ferðaáætlunin hans hefur víst raskast eins og hjá svo mörgum þetta árið. Hann hefur e.t.v. frétt að þorrablótið i Fljótshlíðinni var blásið af og talið þess vegna að honum lægi ekkert á. Annars hefur hegðun Múkkans, ég ætti e.t.v. frekar að nota hitt nafnið, tala um Fýlinn, verið óvenjuleg síðasta árið. Fullorðni fuglinn hefur gjarnan farið í sumarfrí um verslunarmannahelgina en komið svo aftur viku síðar til að kenna unganum flugið, en námskeið í fluglistinni var ekki haldið að þessu sinni, varla að fullorðinn fugl sæist, sama hvað ungarnir grétu af hungri. Múkki eða fýll, hann er velkominn og í mínum huga eru bæði nöfnin jafngóð, þarf ekkert á latínunni að halda, Fulmarus glacialis má víst útleggja sem daunilla máfinn, sem hefst við á ísaslóðum.
Góð kveðja frá Múlakoti