Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir liðin ár.
Meðfylgjandi eru þrjár myndir af „Múlakotsfuglunum“ sem þurfa allar skýringa við.
Fyrstu tvær myndirnar eru af smiðunum okkar, Sigurði og Sigmundi. Þeir gripu tækifærið á milli jóla og nýjárs, þegar veðrið var þurrt og blítt og settu gluggana í bakhýsið. Þeir voru búnir að bíða lengi eftir rétta veðrinu og loksins gafst tækifærið.
Því er ekki að neita að „jólagjöf“ Vinafélagsins til Sjálfseignarstofnunarinnar, 800.000 krónur hressti upp á fjárhaginn og gerði kleyft að setja smiðshöggið á gluggasmíðina.
Þriðja myndin – já þar verðið þið að taka viljann fyrir verkið. Þegar ég var að taka til hádegismatinn, varð mér litið út um gluggann eins og svo oft áður. „Múkkinn er sestur upp“ kallaði ég til eiginmannsins.“Já, er ekki bóndadagurinn á morgun?“ Honum fannst þetta bara sjálfsagður hlutur, við höfum alltaf haldið því fram að fýllinn – eða múkkinn -komi á bóndadaginn, eftir að yfirgefa okkur í svartasta skammdeginu og þetta stenst svo sannarlega núna.
Ef vel er leitað, sjást 4 fuglar á myndinni, einn er á flugi fyrir miðri mynd er þrír sitja á kletttasyllunni.
Vonandi verður árið 2022 okkur öllum betra en síðasta ár og við komumst út úr þessu leiðinda kófi sem hefur verið að hrella okkur, sem allra fyrst
Góð kveðja frá Múlakoti