Gestir og gestabækur

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Heimildir um gesti í Múlakoti má finna á fjölmörgum stöðum. Í gær var hnippt í mig – hefurðu séð myndina af Sigurði Þórarinssyni, þessa úr Múlakotsgarðinum? Ég kom alveg af fjöllum, en þegar ég komst að því að myndin var frá sumrinu 1930, datt mér gestabókin góða í hug.

Morgunstemning í Múlakoti. Sigurður gluggar í bók – bls. 79 í bókinni Sigurður Þórarinsson; Mynd af manni, höf: Sigrún Helgadóttir

Svo virðist sem gestabækur séu mér sérstakt áhugaefni, að minnsta kosti gestabækur Múlakots, því ég hef nokkrum sinnum vitnað í þær máli mínu til stuðnings. Þó veit ég mæta vel að þær eru alls ófullnægjandi heimildir um gestakomur, staðfesta aðeins að þessi eða hinn hafi komið við,  sýna lágmarksfjölda gesta.

Elsta gestabók sem varðveist hefur frá hótelrekstri í Múlakoti var tekin í notkun  um mitt sumar árið 1926, en mestur var gestafjöldi skráður sumarið 1928, alls 1843 gestir sem skráðu nafn sitt. Þetta er mjög mikill fjöldi einkum með tilliti til þess að það sumar var veitingahúsið í byggingu.

Múlakot 22.6.1930, eign fjölskyldu Sigurðar Þórarinssonar

Gestabókin sem tekin var í notkun í júníbyrjun 1930 sker sig frá öðrum bókum, þar sem þetta er eina löggilta gestabókin sem varðveist hefur,  gegnumdregin og innsigluð.  Fremst í bókinni kemur fram að allir, sem hafa atvinnu af að hýsa gesti, skuli nota svona bók, þar sem sérhver næturgestur skuli skrá nafn, starfsheiti, heimilisfang, síðasta dvalarstað og brottfarardag.

Freistandi er að álykta að umræðan um þúsund ára afmæli alþingis þetta sumar og umræðan um væntanlegan fjölda erlendra gesta hafi haft sín áhrif á formlegheitin, við kynnum að taka á móti gestum.

En það voru ekki eingöngu útlendingar á ferðinni. Nemar úr fimmta bekk Menntaskólans á Akureyri héldu í langferð. Fyrst var farið með skipi til Reykjavíkur en svo akandi um Reykjanes og austur í Fljótshlíð.  Eins tóku nemendur þátt í Alþingishátíðinni á Þingvöllum.

Úr gestabók Múlakots, sumarið 1930

Auðvitað brást gestabók Múlakots ekki trausti mínu. 22. júní  skrifa 13 norðanmenn í gestabókina. Brynjólfur Sveinsson kennari, 9 sem skrá sig stud. art, sem er miklu flottara en menntaskólanemi, 2 sem skrifa stud. mag, þeir Steindór Steindórsson og Sverrir Kristjánsson. 2  konur eru í hópnum, Guðrún Jónsdóttir stud. art. og Þórdís Haraldsdóttir.

Myndir úr bókinni er birt með leyfi höfundar og fjölskyldu