Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Hér hefur svo sannarlega verið allt á ferð og flugi að undanförnu.
Í vor kom helmingur Danmerkurdeildar Vinafélagsins í heimsókn og fyrir þremur dögum kom hinn helmingur deildarinnar. Vibeke og Hans höfðu farið á Langanes til að upplifa súluvarp í allri sinni dýrð og komu til baka í Fljótshlíðina alsæl og örmagna. Vibeke og vinahjón skoðuðu framkvæmdir síðasta árs í gamla bænum og dáðust að. Þótt það sé betra en ekkert að fá myndir og fréttir er sjón sögu ríkari.
Við hjónin höfðum vaknað snemma um morguninn við kunnugleg hljóð, létt bank í gluggann og eins og murr-hljóð; það skyldi þó ekki vera? Ó, jú, þarna var tjaldurinn búinn að gera sig heimakominn með lítinn dúnhnoðra með sér. Og unganum er ekki leiðbeint með háværu kalli, það er notaður blíðutónn sem tjaldurinn er annars ekki þekktur fyrir. Þarna var „Sokkaparið“ okkar komið, sem hafði ekki látið sjá sig í nokkra daga, hafði greinilega haft í öðru að snúast. Ég læt fylgja mynd sem ég náði af unganum gegnum gluggarúðuna.
Tveimur dögum síðar náði ég mynd af allri fjölskyldunni í kvöldmat. Þar sást að ungarnir eru tveir. Á þessum stutta tíma hefur þeim vaxið ásmegin, dúnninn lyfst og litirnir orðið skírari.
Verkaskipting fullorðnu fuglanna er greinileg, annað foreldrið hafði haft þá undir sínum verndarvæng í orðsins fyllstu merkingu en hitt foreldrið dró björg í bú. Nú urðu vaktaskipti.
Já, búast má við tjaldfréttum næstu dagana.
Góð kveðja frá Múlakoti