Málararnir mættir

Málararnir eru aftur mættir á staðinn. Þeir tóku góða skorpu fyrir afmælishátíðina og máluðu baðstofuna fallega bláa, öllum augnayndi sem sáu.

Nú komu  þeir í gær og tóku til þar sem frá var horfið.

Stundum er sagt að myndir séu betri en orð. Nú finnst mér samt sem fáein orð þurfi til skýringar. Meðfylgjandi mynd er tekin í litla svefnherberginu, hjóna kamersinu. Hér er búið að standa við í tvo daga og skafa og skrapa en áður höfðu smiðirnir okkar endurnýjað neðri hluta veggjanna að verulegu leiti.

Þarna voru fleiri lög af ljósri vatnsmálningu sem hrundu af þegar málararnir munduðu sín áhöld. En neðsta lagið, þetta grágræna, situr sem fastast. Það er heldur ekki vatnsmálning, heldur hin göfuga linoleum-málning sem notuð var í árdaga húsamálunar.

Ég verð nú að játa að mér fannst ljósa vatnsmálningin fara þessu litla herbergi vel, en húsafriðun gengur meðal annars út á að færa hús til upprunalegs horfs, hreinlega skafa burt „skemmdarverk“ kynslóðanna, en hvað um það.

Í horninu sést sá litur sem verður settur á herbergið, panellinn grágrænn og neðri hlutinn brúnn. Veggurinn sem snýr að ganginum verður í sama grágræna litnum.

Þetta verður framhaldssaga

Góð kveðja frá Múlakoti