Fjölgun íbúa í Múlakoti

Það er mikið að gerast í Múlakoti þessa dagana. Maður nánast tiplar á tánum um grund og móa og skimar á varðbergi úr sláttuvélarsætinu.

Ég kynnti fyrir ykkur um daginn herra Sokka og frú. En nú þarf ég að leiðrétta mig, frú Sokku og eiginmann, það sást til þeirra!. En nú hefur frú Sokka ekki sést þónokkurn tíma og ég var farin að hafa áhyggjur af velferð hennar. En viti menn, fyrir 3 dögum var Stefán að slá niðri á túni. Stendur frú Sokka þá ekki allt í einu upp úr óslægjunni  og gaf með látbragði tvímælalaust til kynna að nú væri hann farinn að nálgast heimkynni hennar óþarflega mikið. Henni tókst að herja út úr honum u.þ.b. 30 fermetra spildu, svona eins og góða stúdentaíbúð, fyrir sig og fjölskylduna. Og viti menn, hann  veit um 3-4 önnur tjaldhreiður á víð og dreif um túnið.

Ekki flókin hreiðurgerð hjá tjaldinum

Verra er það þó með Garðars-fjölskylduna. Þegar við ætluðum að tæta grænmetisgarðinn fyrir liðlega 15 dögum síðan rak ég augun í að tjaldur hafði gert sé hreiður í  kartöflubeðinu miðju. Eftir neyðarfund í eldhúsinu var ákveðið að tæta garðinn eftir sem áður, en skilja eftir góða ræmu fyrir tjaldinn, sem fékk nafnið Garðar þegar hann var tekinn inn í Múlakotssamfélagið. Eftir nokkra daga þegar tjaldurinn virtist hafa sætt sig við jarðvinnsluna, voru settar niður kartöflur og sáð gulrótum og breitt yfir. Tjaldurinn hefur hingað til bara brugðið sér örlítið af bæ ef við höfum nálgast hreiðrið of mikið.

Gæsin á sér skemmtilega sögu. Þegar Eyjafjallajökull gaus, sællar minningar, vorið 2010, voru allt í einu tún og brekkur full af gæs, sem vagaði hér um öskublaut, og greinilega með heimþrá eftir heiðalendunum sínum hér inn af. Þónokkrar gæsamömmur komu upp ungum og sáust á tjörninni okkar. Síðan hefur gæsinni bara fjölgað. Í gær fann eiginmaðurinn gæsahreiður í jaðri eins skjólbeltisins á túninu, 4 egg. Hvað svo verður veit nú enginn.

Gæsahreiður

Við erum með hettumáva-nýlendu í tjarnarhólmanum og dauðsjáum núna eftir að hafa búið hólmann til. Það er nógu slæmt að hafa hrafninn vokkandi yfir hverju hreiðri sem hann finnur þótt hettumávurinn bætist ekki við.

Í morgun sáum við svo út um gluggann á bílskúrnum að það var komið þrastarhreiður á gluggasilluna, 5 egg, vel falin bak við purpurabroddinn. Annars eru þrastarhreiður úti um allt, í reynitrjám í gamla garðinum , birki og greni hér heima við. Það er naumast tími til að sofa svona um blánóttina, við teljum okkur vera á „barnapíuvaktinni“.

Eggin 5 í þrastarhreiðrinu

Góð kveðja frá Múlakoti