Fundinn fjársjóður

Í gær rölti ég yfir í gamla bæinn í Múlakoti. Það er svo sem varla í frásögur færandi, en þegar ég stóð þarna inni í baðstofunni og horfði í kringum mig, fékk ég allt  í einu hugljómun. Já, þarna og hvergi annarsstaðar á myndin að vera – já bláa myndin.

Mér hættir til að byrja inni í miðri sögu, ef ég þá byrja ekki á endinum,, en nú skal ég reyna að stilla mig.

Við hjónin keyptum jörðina af Reyni, syni Láru og Ólafs Túbals, svona með manni og mús, eins og stundum er sagt, og þurftum því að greina hismið frá kjarnanum.  Margt óvænt kom í ljós, bæði inni í bæ og í útihúsum, en það voru öll málverkin, bæði í málarastofunni og bæjarhúsum, sem komu okkur mest á óvart. Þarna gerðum við okkur grein fyrir að við vorum með fjársjóð í höndunum, skaddaðan fjársjóð að vísu, en ekki væri sama hvernig um hann væri gengið.

Við fengum ráðgjöf hjá sérfræðingum hvernig við ættum að þurrka myndirnar og koma þeim í ramma, því þær þoldu ekkert beint hnjask, og svo kom að því að unnt var að leyfa öðrum að njóta þessa fjársjóðs með okkur.

Sveitarfélagið lagði fram sýningarsalinn og Katrín Óskarsdóttir annaðist skipulagningu og uppsetningu  af sinni alkunnu smekkvísi og 22.október 2006 var boðið til leitar að fundna fjársjóðnum frá Múlakoti. Hátt í 700 manns tóku boðinu.

Nær allar myndirnar hafa orðið fyrir skemmdum, yfirleitt rakaskemmdum, en bláa myndin, olíumálverk, var  alla tíð inni í bæ  upprúlluð svo skemmdir á henni eru annars eðlis. Þetta er eina myndin sem ekki er fullunnin. Konan sem situr á rúmi sínu, hefur að vísu ekki fengið andlit og eftir er að mála rokkinn sem hún er að spinna á og nokkrar myndir á veggi, þar sjást bara auðir hvítir fletir á dökkbláum vegg.

En það er ekki um að villast, Þessi mynd sýnir baðstofuna, blái liturinn kom í  ljós þegar búið var að fjarlægja veggpappírinn, sem settur hafði verið til að draga úr næðingi gegnum gisinn panel.

Nú verður myndinni komið fyrir á baðstofuveggnum og fallegi rokkurinn, sem Sigurður Sigurkarlsson gaf Vinafélaginu, sómir sér vel í horninu við gluggann.

Góð kveðja frá Múlakoti