Góðar gjafir

Nú má eiginlega segja að sjaldgæfir séu hvítir hrafnar. Það hefur ekki verið gestkvæmt í Múlakoti að undanförnu enda varla við öðru að búast nú á tímum ferðatakmarkana. Þeim mun ánægjulegra  er að fá góða gesti. Þann 12. maí komu tvær sómakonur í heimsókn, þær Ólöf Kristófersdóttir á Útgörðum og Helga Hansdóttir á Hvolsvelli.

Helga kom færandi hendi. Hún afhenti okkur tvo muni til varðveislu í Múlakotsbænum, kleinujárn og ljósmynd. Báðir munirnir eiga sér sína sögu. Ljósmyndin er af Reyni, syni þeirra Láru Eyjólfsdóttur og Ólafs Túbals, en Reynir var síðasti hefðbundni bóndinn í Múlakoti vesturbæ. Reynir gaf Helgu þessa góðu ljósmynd, sem var tekin þegar hann var tæplega fimmtugur. Síðasta hálfan annan áratuginn bjó hann einn í Múlakoti, en hann var duglegur að heimsækja fólk, átti fastan vinahóp sem hann heimsótti reglulega og var Helga í þeim hópi. Í einni heimsókninni færði hann Helgu kleinujárnið. Þetta var gamla kleinujárnið frá Múlakoti og bar með sér að það hafði verið mikið notað. Skaft kleinujárnsins er úr tré. Ef myndin er skoðuð vel sést að úr því hefur eyðst. Þetta er músarnart, en af skaftinu hefur verið bragð og ilmur af öllu því deigi sem það komst í snertingu við í Múlakoti. Hjólið er líklega úr messing, mjög fallega mótað en dálítið slit komið í öxulinn, enda mikið notað, bæði var  mikið bakað í Múlakoti á tímum hótelrekstursins og eins notaði Helga það við starf sitt í eldhúsi Grunnskólans á Hvolsvelli. Þar starfaði Helga lengi og var elskuð af skólabörnum sem leituðu mikið til hennar ef á bjátaði. Helga er ákaflega barngóð og bóngóð og næstum er unnt að segja að hún hafi verið á við heila félagsmálastofnun á Hvolsvelli. Hún er mikill safnari, vettlingasafn hennar er frægt og hefur verið til sýnis víða um land. Eins hefur hún safnað miklu af handavinnu, sem hún gefur ef hún telur að munirnir eigi betur heima hjá öðrum en henni sjálfri. Eins heldur hún utan um ýmsa smáhluti og þetta vissi Reynir, taldi hana vel að kleinujárninu frá Múlakoti komna og bað hana að njóta vel. Nú er járnið komið aftur að Múlakoti.

Myndin af Reyni verður sett upp í gamla herberginu hans á loftinu yfir veitingasalnum. Þegar er búið að endurnýja gluggann á því herbergi og þegar fjárhagurinn leyfir verður farið í viðgerðir á því húsnæði öllu.

Góð kveðja frá Múlakoti