Gæsagangur

Að morgni 10. maí 2020 var ég á leiðinni út í Guðbjargargarð í hreinsunarvinnu, þegar ég rak augun í gulhvíta „hrúgu“ á miðri grasflötinni ofan við hús okkar. Ó já, þetta var sem okkur sýndist, myndarlegt gæsaregg.

Í sömu svipan rifjaðist upp hvernig  við gerðumst gæsabændur. Þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa síðla apríl 2010 sendi hann annað veifið öskugusur yfir Fljótshlíðina og fengum við okkar hluta af því. Farfuglarnir voru sem óðast að koma til landsins og létu eitt eldgos ekki trufla sig – og þó. Gæsirnar sem venjulega höfðu aðeins viðkomu á Múlakotstúnunum virtust ekki komast á hefðbundnar varpstöðvar, en settust að hjá okkur. Það var dapurlegt að sjá þessa stóru fugla vappa um öskugráa og miður sín. Nokkur gæsapör komu sér samt vel fyrir í brekkunum, verptu og komu upp ungum. Já, það var ekki mikið unnið við garðahreinsun vorið 2010, þeim mun meira horft út um gluggana á eldgosið.

 Næstu árin fannst okkur sem varppörum fjölgaði og svo kom að tvisvar fundum við heil egg heima við hús okkur til mikillar furðu, því ekki var um  neina hreiðurgerð að ræða þar og varla höfðu gæsirnar misst egg á flugi.

Skýringuna fengum við fyrst nokkrum árum seinna, þegar við vorum að gróðursetja á skógræktarsvæðinu okkar niðri á aur. Við áttum mjög fallegan og gæfan íslenskan hund, hann Mána.

Hann fylgdi okkur alltaf eftir og gegndi vel öllu tiltali. Eitt skiptið brá þó öðru við. Hann reisti sig upp og starði einbeittur fram fyrir sig og tók síðan strikið burtu og lét sem hann heyrði ekki köllin í okkur.

Eftir dágóða stund kom hann til baka en nú var sem hann læddist áfram, nærri skreið. Eitthvað var hann með í kjaftinum og viti menn, hann lagði heilt gæsaregg í lófana á mér. Hvernig honum tókst að ná utan um eggið án þess að brjóta það skil ég ekki, því gæsaregg eru um 10 cm á lengd og 6 á breidd.

Nú skildum við hvernig stóð á gæsareggjunum heima við hús, einmitt á stöðum þar sem hundurinn lá oft, hann var að draga björg í bú, en snerti ekki við egginu sjálfur þótt það lægi úti dögum saman.

En þetta var ekki skýringin á egginu sem við fundum núna, því Máni blessaður er löngu genginn á vit feðra sinna. Eggið var líka opið og búið að hreinsa úr því hverja örðu. Þarna hefur líkast  til verið hrafn á ferðinni þótt mér finnist heilt gæsaregg vera ótrúlega stórt í hans gogg, því varla hefur refur verið á ferðinni svona heima við hús.

Já, gæsabændur erum við orðin núna því milli 10 og 20 pör eru orðin fastagestir hérna, eftir gosið „góða“.