Lægðin stóra – veturnáttalægðin

Mér brá þegar ég leit út um eldhúsgluggann í morgun og þó brá mér jafnvel meira þegar við fórum að skoða veðurstöðina, en það er athöfn sem jafnast á við að bursta tennurnar á morgnanna. Klettaveggurinn fyrir ofan hlaðið var svellaður eins og á janúarmorgni. Ef ekki hefði verið græn grasflöt og allaufgað Gullregn  við hliðinni á grenitrénu  hefði ég kokgleypt við tímasetningunni janúar. Veðurstöðin staðfesti illan grun, lágmarkshiti næturinnar var ekki hiti heldur frost, já 8 stiga frost. Ónotin voru ekki minni þegar leitað var á náðir Eyjafjallajökuls, hann faldi sig á bak við illyrmislegan skýjahnút, sem snjóaði svo úr þegar líða tók á daginn. Nú væri erfitt að finna grænan grasblett til að taka mynd af.

Eins gott að einangrunarmotta verður lögð á loftið yfir gamla bænum til að halda velgjunni frá varmadælunni  inni svo smiðirnir okkar verði ekki krókloppnir þegar þeir mæta aftur.

Mig langar til að kafa dálítið ofan í orðið veturnætur.  Eins og oft áður má finna skýringu hjá Árna Björnssyni í Sögu daganna. Hann vitnar í tímatalið – gamla og það nýja sem líka var kallað nýji stíll og er frá því um 1700. Við vitum  öll að sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi og fyrsti vetrardagur alltaf  á laugardegi og vikurnar eru 52. Jafn margar vikur eiga að vera í sumri og vetri, þannig að fyrsti vetrardagur ætti eiginlega að vera á fimmtudegi svo við erum eiginlega komin með tvo daga aukreitis, þetta eru veturnæturnar.

Veturnætur voru vel nýttar hér áður fyrr, þær voru notaðar til góðra vina funda, veisluhalda af ýmsu tagi, enda var búrið fullt, slátrun búpenings lokið og jafnvel búið að leggja í drykkjarföng.

Þetta ættum við e.t.v. að taka okkur til fyrirmyndar, bjóða heim góðum vinum, gleðjast saman yfir góðu, liðnu sumri. Við hér í Rangárþingi eystra megum þó gæta okkar að ekki fari eins og þegar Gunnari og Hallgerði var boðið í veturnótta-gilli að Bergþórshvoli og eiginkonunum lenti illilega saman.

Mál er að ljúki.

Góð kveðja frá Múlakoti

Eyjafjallajökull falinn bak við illyrmislegan skýjahnút