Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti
Nú er svo sannarlega hásumar og í venjulegu árferði væri bulllandi gestagangur í Fljótshlíðinni. Vissulega er meiri umferð en var í fyrrasumar, það sést vel á áningarstaðnum við Merkjaá þar sem iðulega eru 6-8 bílar en sást varla bíll í fyrra sumar. Sveitarfélagið hefur varið mikilli vinnu í að lagfæra staðinn sem greinilega skilar sér.
Síðustu daga hefur lifnað yfir gestakomum í Múlakoti. Á laugardaginn síðasta var ég úti í garði að hreinsa til í beðum þegar 6 hressar konur komu aðvífandi til að skoða garðinn. Okkur talaðist svo til að ég sýndi þeim líka húsið sem ég gerði með mikilli ánægju. Mikið var spurt og spjallað, tvær þeirra voru arkitektar með áhuga á gömlum húsum og ein hafði haft tengingu við Hlíðarendakot fyrir margt löngu.
Á sunnudaginn kom lítill hópur sem gert hafði boð á undan sér, 5 systkini og 2 makar þeirra, sem höfðu sérstakt erindi í Múlakot. Langafi þeirra, Ólafur Theodór Guðmundsson, var hálfbróðir Túbals, eiginmanns Guðbjargar. Þarna fræddist ég heilmikið um og ættingja Túbals, sem hét fullu nafni Túbal Karl Magnús Magnússon. Magnús var Fljótshlíðingur og Valgerður, móðir Túbals, var það líka, sem kom mér á óvart, því þegar þau tóku saman voru þau bæði vinnuhjú á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd.
Mér var lofað nánari upplýsingum um þessi tengsli.
Meðfylgjandi er mynd af hópnum, Benediktsbörnin 5, ættingjar Túbals, og 2 makar.
Góð kveðja frá Múlakoti