Sumarið er komið

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Ég hef margoft ætlað að senda línu, en mér hefur fundist ég vera svo neikvæð, ekkert að segja frá annað en næturfrost og nær óyfirstíganlegt rusl eftir veturinn í báðum görðunum í Múlakoti, Guðbjargargarði og Sigríðargarði, en nú er sumarið komið í sálinni í mér. – Í gær  komu gestir – fyrstu gestir ársins, já, ég hef ekki orðið vör við að neinn hafi svo mikið sem kíkt á garðinn. Og það  er von að ég sé upplyft, því það má segja að þetta hafi verið andlegir gestir, eldri borgarar í Áskirkju og Laugarneskirkju.

Fyrst var hringt í byrjun vikunnar og spurt  hvort ekki yrði tekið á móti, jú, ég hélt nú það, hvað verðið þið mörg? Ja, svona 40. Ég kyngdi og sagði, “við leysum það.” Hugsaði að vonandi gæti ég fengið aðstoð, sem ég og fékk. Hún Hrefna Jónsdóttir, úr stjórn vinafélagsins, kom alla leið úr Garðabænum og var til ómetanlegrar aðstoðar.

Á annarri myndinni sést hvernig hópurinn streymdi að, ekki bara þessir 40 heldur voru þau 54 þegar upp var staðið.

Á hinni myndinni eru þrjár konur; Jóhanna María, djákni í Áskirkju og skipuleggjandi ferðarinnar, Sigríður móðir hennar og Hrefna okkar Jónsdóttir. Sigríður og Hrefna sáust þarna eftir 60 ár , alveg alsælar yfir þessari tilviljun. Í baksýn myndarinnar sést að garðhúsgögnin komu sér heldur betur vel, því nesti var drukkið úti í garði – í þurrviðri, en það kom skúr á undan og eftir.

Í fyrra kom aðeins einn hópur – en ekki má gleyma afmælishátíðinni hátt í 200 manns. Akkúrat þá giltu ekki strangar Covid-reglur, en allir pössuðu sig vel.

Í morgun fékk ég aftur fyrirspurn vegna heimsóknar – guð láti gott á vita

Góð kveðja frá Múlakoti