Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti
Oft er þörf á að gera hreint fyrir sínum dyrum og ef þess þarf ekki eftir stórhátíð þá veit ég ekki hvenær.
Svona veisla verður ekki til nema fyrir samstarf margra aðila. Við höfðum stóra styrktaraðila, Menningarnefnd Rangárþings eystra, SASS og Sláturfélagið. Öll stjórn Vinafélagsins kom að verkinu, en þar vil ég einkum nefna Björn formann vorn og Hrefnu Jónsdóttur. Veitingarnar voru ekki af verri endanum og margir sáu um að baka. Bara að smyrja flatkökurnar tók 9 vinnustundir og þar var samt keppst við. Drjúgur tími fór í að smala saman húsgögnum, en þeir fallegu bekkir og borð sem venjulega eru í garðinum dugðu hvergi til, enda hver getur séð 200 manns fyrir sætum úti í garði, ég bara spyr?
Svo voru allir þeir sem unnu við framreiðslu veitinga og svo frágang á eftir, að ljósmyndaranum okkar ógleymdum. Myndirnar hans verða á heimasíðunni aðgengilegar öllum.
Okkur – Vinafélaginu – Sjálfseignarstofnuninni – staðnum voru líka færðar góðar gjafir. Þegar hefur verið sagt frá Gullbrúðkaupskveðju Tómasar Guðmundssonar skálds, sem sonur hans og tengdadóttir færðu okkur í handriti skáldsins. Kvæðið hefur aldrei verið birt opinberlega áður og aðeins flutt í Múlakoti.
Elinborg Sigurðardóttir, formaður sambands sunnlenskra kvenna, var svo lítillát að hún greindi ekki sjálf frá því að stjórn SSK gaf kr. 50.000.- til uppbyggingarinnar. Vinir Múlakots, hjón sem búa suður með sjó, vilja ekki láta nafns síns getið, en þau gáfu 25.000.- í sama skyni og Hrefna Jónsdóttir gaf til varðveislu í gamla bænum salúnsofið rúmteppi, sem Soffía Gísladóttir, móðir hennar, óf undir handleiðslu Guðbjargar. Handbragðið ber fagurt vitni bæði nemenda og kennara, en Soffía, sem var frænka Múlakotshjónanna beggja, var alin upp í Múlakoti. Eins kom Hrefna með lítið borð, eða hirslu, sem var eign Fjólu, dóttur Ólafs og Láru, og hún geymdi fjársjóði sína í. Á þessu borði verður ljósrit af ljóði Tómasar varðveitt.
Vinum Múlakots fjölgaði um 20 þennan dag.
Kærar þakkir til allra, gesta og starfsmanna.
Ávörpin verða birt á .heimasíðunni