Tjaldakveðja frá Múlakoti

Við hjónakornin höfum verið með böggum hildar að undanförnu. Fyrir liðlega hálfum mánuði fundum við tjaldshræ úti við hlið, sem fallið hafði fyrir óvinarhendi. Þetta var ómerktur fugl þannig að ekki var það hún Sokka okkar, enda sáum við hana vestast á túninu nokkru seinna. En hún var sárasjaldan kringum húsið eins og hennar var vani, sást samt svona hér og þar, alltaf ein.Ég var farin að semja jarðarfarargrein í huganum, en ekkert varð úr skrifum.

Í gær heyrðum við svo skrítin og skemmtileg hljóð utan af stétt og viti menn, þarna var Sokkaparið okkar komið með tvo úfna, en stóra dúnhnoðra með sér.

Það eru allt önnur hljóð í tjaldinum þegar hann „talar“ við ungana en þegar hann skammar nágrannana, alveg dásamlegt.

Í gær hélt fjölskyldan til á stéttinni umhverfis húsið, enda höfum við í mörg ár talið að hreiðrið sé á grasþakinu. Foreldrarnir voru báðir á sprettinum að bera í ungana fæðu, komu hlaupandi með stóra maðka lafandi niður úr gogginum, sem þeir héldu svo niðri meðan unginn fékk sér bita. Stórskemmtilegt.

Í morgun var herra Sokki einn á ferð með annan ungann sem hann mataði í gríð og erg. Ótrúlegt en satt, þá náði ég bærilegum myndum út í gegnum rúðuna.