Framvinda smíðavinnu í Múlakoti

Smiðirnir okkar hafa unnið af kappi undanfarnar vikur en nú taka þeir sér nokkurt hlé því næst er nauðsyn að mála.

Leitað er í dyrum og dyngjum að málara sem kann listina við að nota gamaldags linoleum-málningu, því varla er við hæfi að mála hús sem er byggt 1897 með plast-málningu.

En nú vil ég bjóða ykkur að ganga í bæinn.

Þið munið flest sjálfsagt eftir milljón krónu hurðinni sem var smíðuð í fyrra fyrir bíslagið  eða milliganginn á milli elsta hússins og veitingahússins. Það er sú hurð sem sést á fyrstu myndinni. Vegginn umhverfis þurfti að endursmíða og sömuleiðis loftið. Næst er ykkur boðið að ganga til stofu. Erfitt er að taka mynd af nýsmíði og endurnotun gluggaramma að innanverðu, en fallegir eru þeir. Þá kemur  hornið í stofunni, hurðin, sveigurinn umhverfis millivegginn og hvíti listinn á mótum kverkar og lofts þar má sjá móta fyrir útlínum viðarteinungsins – að hluta til. Næsta mynd sýnir loftið í ganginum frá stofu í hin herbergin. Þar stóð ekki steinn yfir steini þótt ég ætti frekar að segja spýta yfir spýtu. Litbrigði loftapanelsins segja frá útsjónarsemi smiðanna okkar við að endurnota það sem heillegt er. Við endum á baðstofunni. Þar þurfti líka að endurnýja mörg spjöld í „stokkaklæðningunni“.

Góð kveðja frá Múlakoti