Zontakonur úr Reykjavík heimsækja gamla bæinn

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Við fengum góða gesti síðastliðinn laugardag. Mér finnst dálítið freistandi að líta á þá sem fyrstu gesti haustsins, það er eitthvað léttara yfir því en að tala um síðustu gesti sumarsins.Þetta var líka léttur og glaðvær hópur, Zontakonur úr Reykjavík og þeirra gestir. Við vorum líka heppin með veðrið – mér er reyndar sagt að ég segi að það sé alltaf gott veður í Múlakoti, en ýkjulaust, Fljótshlíðin, og þá sérstaklega innhlíðin,  er mjög veðursæl. Hér eru bara tvær áttir, austanátt og vestanátt. Eyjafjallajökul sér fyrir sunnanáttinni og fjallið, ég á e.t.v. að segja Múlakotsheiðin, tekur norðanáttina.

Það var logn og sól þegar hópurinn kom og við tókum strikið beint inn í gamla garðinn og gestirnir gripu strax andann á lofti þegar þeir sáu nýju garðhúsgögnin. Þeim var klappað og strokið og mynduð í bak og fyrir. Og hugsið ykkur bara hvort ég notfæri mér ekki að segja sögur tengdar garðinum og gróðrinum meðan gestirnir láta fara vel um sig á nýjum bekkjum úr 100 ára gömlum reynitrjám.

Síðan fóru allir inn í bæ og þar var talað, spurt og hlegið  af hjartans list.

Góð kveðja frá Múlakoti