Afmælishátíð í Múlakoti

Sunnudaginn 26. júlí verður blásið til mannfagnaðar í Múlakoti. Tilefnið er að 150 ár eru liðin frá fæðingu Guðbjargar Þorleifsdóttur húsfreyju þar.

Sú var tíðin að nafn hennar var þekkt um allt Ísland því á fyrri hluta síðustu aldar var hún talin mesta ræktunarkona Suðurlands, ef ekki alls landsins.

Foreldrar Guðbjargar, þau Þuríður Jónsdóttir og Þorleifur Eyjólfsson, fluttust að Múlakoti 1869 ásamt tveimur sonum, og þar fæddist Guðbjörg 27. júlí 1870. Guðbjörg og eiginmaður hennar, Túbal Karl Magnússon tóku við búsforráðum 1897 og áttu þar heima til dauðadags, þau eignuðust 4 börn, þrjár dætur og soninn Ólaf, sem tók við búi um 1935 ásamt konu sinni, Láru Eyjólfsdóttur.

Árið 1897 er merkisár í sögu Múlakots fyrir margra hluta sakir. Eini sonurinn fæddist, byggt var nýtt íbúðarhús, en eldra hús hafði eyðilagst í Suðurlandsskjálftanum 1896, og Guðbjörg eignaðist fyrstu trén, örsmáar reyniplöntur úr Nauthúsagili.

Nokkrum árum áður hafði hún fengið um 10 m-2 skika úr grænmetisgarðinum fyrir sunnan húsið undir blómarækt, en aldur garðsins miðaði hún við aldur trjánna.

Svo vel vill til að Guðbjörg skrifaði sjálf grein í Búnaðarritið þar sem hún lýsti ræktunaráhuga sínum frá blautu barnsbeini og sögu garðsins, hvernig hann stækkaði stöðugt. Nú er garðurinn 1000 m-2 en þeirri stærð hafði hann náð árið 1944.

Garðurinn í Múlakoti varð landsfrægur, þangað streymdi að fólk til að skoða garðinn sem átti sér engan  líka. Ræktunarfrömuðir landsins komu gjarnan í Múlakot með erlenda gesti til að sýna þeim og sanna að fjölbreyttur yndisgróður gæti þrifist á Íslandi.

Guðbjörg var svo natin við að koma á legg viðkvæmum jurtum að ef bárust til landsins plöntur sem garðyrkjumenn töldu hæpið að myndu geta þrifist, var ráðið hjá mörgum að biðja Guðbjörgu um að spreyta sig. Ef henni tókst ekki að fá plönturnar til að lifa, tjóaði lítið fyrir aðra að reyna.

Hún var beðin um að veita forstöðu uppeldisstöð trjáplantna fyrir Skógrækt ríkisins. Þessu neitaði Guðbjörg, taldi sig hafa meira en nóg á sinni könnu við heimilisstörfin og að auki væri hún ómenntuð.

Engu að síður ræktaði hún upp mikið af trjáplöntum, bæði birki og reyni, og ýmist gaf eða seldi. Plöntur frá Guðbjörgu voru í flestum görðum á Suðurlandi.

Guðbjörgu var margvíslegur sómi sýndur sem sýnir að störf hennar voru mikils metin. Garðyrkjufélag Íslands gaf henni stórt gróðurhús þegar hún varð sjötug og gerði hana að heiðursfélaga sínum árið 1944 og eins var hún sæmd Fálkaorðunni af sama tilefni.

Samband sunnlenskra kvenna sýndi hug sinn í verki í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá fæðingu hennar og gaf veglegan minnisvarða prýddan lágmynd af henni eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Myndarleg dagskrá var í Ríkisútvarpinu vegna 100 ára afmælisins.

Listmálarar uppgötvuðu líka Múlakot. Fyrstur í langri röð var Ásgrímur Jónsson listmálari sem dvaldi þar fyrst sumarið 1914 og málaði þar og í næsta nágrenni margar perlur í listasögu Íslands. Ólafur lagði líka fyrir sig listmálun og naut góðs af leiðsögn Ásmundar og fleiri listamanna. Múlakot varð vinsæll dvalarstaður um langt skeið hjá listmálurum.

Árið 1928 var byggt við íbúðarhúsið sérstök bygging fyrir veitingareksturinn og 1946 var bætt við gistinguna. Það sýnir glöggt gestaganginn að sumarið sem veitingahúsið var byggt, skrifuðu um 1850 manns nöfn sín í gestabók staðarins.

Til að gera langa sögu stutta þá lést Guðbjörg árið 1958  en Túbal hafði látist 1946. Ólafur sonur þeirra andaðist 1964. Hótelrekstri  í Múlakoti lauk um 1982 og eigendaskipti urðu á jörðinni í lok árs 2000 þegar Stefán Guðbergsson og Sigríður Hjartar eignuðust hana.

Þeim var vandi á höndum, því húsnæðið reyndist óíbúðarhæft og garðurinn  í niðurníðslu eftir áratuga vanhirðu.

Loks fannst lausnin. Eftir heildarfriðun bæjartorfunnar var stofnuð sjálfseignarstofnun um gamla bæinn í Múlakoti. Aðilar eru sveitarfélagið Rangárþing eystra, Skógasafn og eigendur jarðarinnar, sem gáfu stofnuninni gömlu bæjarhúsin og garðinn. Verkefni stofnunarinnar er einkum að annast fjármögnun og endurbyggingu húsakynna. Mikil vinna hefur þegar verið lögð í endurbyggingu íbúðarhússins frá 1897.

Jafnframt var stofnað Vinafélag, sem í eru liðlega 100 aðilar, einstaklingar og fyrirtæki. Það annast einkum félagslegu hliðina, stendur fyrir upplýsingagjöf, heimasíðu og árvissu Ljósakvöldi fyrsta laugardagskvöld í september, þegar garðurinn er upplýstur. Þá er notið veitinga og hlustað á ýmsan fróðleik í kvöldhúminu.

Húsgögnin í garðinum eru smíðuð úr reynivið, sem fallið hefur til í garðinum þegar þurft hefur að grisja eða fella  trén, þau elstu vel yfir 100 ára gömul. Öllum er heimilt heimsækja gamla garðinn í Múlakoti endurgjaldslaust, en hópar geta fengið leiðsögn um húsið gegn vægu gjaldi.

150 ára afmælishátíðin verður haldin sunnudaginn 26. júlí. Samkoman hefst kl. 15, flutt verða stutt   ávörp, söngur og einfaldar kaffiveitingar verða úti í garði. Aðgangur er ókeypis, en allir styrkir eru vel þegnir. Munið að klæða ykkur eftir veðri. Ef frekari fjöldatakmarkanir verða settar á samkomur en nú er, verður auðvitað að hlýta þeim.