Haustlitir í Múlakoti

Þegar ég var að slíta barnsskónum var hugtakið sunnudagsbíltúr í góðu gildi. Á bernskuheimilinu lá hann venjulega niður á höfn þar sem pabbi hvarf um borð í eitthvert „fellið“ en mamma sat úti í bíl með fýldan barnahópinn. Mér verður stundum hugsað til þessa og hvert ég myndi hafa farið með fjölskylduna, jú, í grasagarðinn eða upp í Heiðmörk, en hvorugur þessara staða var til í minni „fornöld“.

Núna segi ég að Fljótshlíðin er sannarlega skoðunarverð á björtum haustdegi. Þar á ég auðvitað fyrst og fremst við Múlakot, því haustlitirnir eru núna alveg ótrúlegir. Litartónar frá dökkgrænu um skærgult yfir í dökkrautt, sama hvert litið er. Meðfram Fljótshlíðarveginum eru nokkrar þyrpingar ungra aspartrjáa og litirnir á þeim minna fljótt á litið á skógareld, en heima við Múlakotsgarðinn leggja reynitrén til rauða litinn, bæði með berjum og laufskrúði.

Fyrri myndin er tekin á svæðinu milli grafreits og gamla hótelsins. Þarna eru þrjár mismunandi tegundir af hegg; blóðheggur með dökkrauðu laufi, næfurheggur með svo ljósgulu laufi að það er nánast hvítt núna, svo bronslitaður gljáandi börkurinn nýtur sín til fulls, og „algengi“ heggurinn sem enn heldur dökkgræna litnum.

Á seinni myndinni er  málarastofa Ólafs Túbals, eins og prýdd haustlitum, en beggja vegna eru hlynir, fagurgrænn  garðahlynur frá Þrændalögum og purpuralitur broddhlynur,, afbrigði „Fassens Black, alveg ótrúlegur á litinn.

Komið og njótið

Kveðja frá Múlakoti