Málun í Múlakoti

Þessa dagana stendur yfir málun innanhúss í Múlakotsbænum en það er Málingarþjónustan ehf. á Selfossi sem sér um verkið. Eftirfarandi yfirlit er komið frá Steindóri Pálssyni málarameistara

Áður en farið er yfir verkstöðuna kemur hér fyrst að aðferðinni sem við beitum við málun gamalla húsa. Allur panill og allir listar eru unnir þannig að öll laus og flagnandi málning er fjarlægð. Slípað með sandpappír og skafið eftir því sem við á. Allar kverkar og rifur milli panilborða eru hreinsaðar upp með oddmjóum sköfum og slípaðar með sandpappír. Þá eru allir fletir ryksugaðir og einnig ryksugað vel úr öllum rifum og kverkum. Allt skrap og óhreinindi hreinsað upp af gólfum. Áður en málun hefst eru svo allir fletir þvegnir með volgu vatni, en það er endanleg rykhreinsun og þá er komiða að málun

Allir fletir eru málaðir með línolíumálningu, tvær umferðir með 5 – 7 daga millibili því þurktími þess háttar efna er mjög langur. Reynt er að koma málningu eins vel og hægt er í allar rifur. Gluggar í þeim rýmum sem við erum að mála núna eru nýir og lakkaðir með aðeins nútímlegri aðferðum.

Verkstaðan föstudaginn 17. júlí er sem hér segir:

Baðstofa: Þar er búið að slípa og hreinsa bæði loft og veggi. Búið er að mála allt það herbergi, veggir hafa eina umferð en loftið er fullmálað.         

Hjónakames og stofa: þar er málun ekki hafin en slípun langt komin. Það er gaman að segja frá því að þegar slípaður var breiður loftlisti í stofunni þá kom í ljós skrautbekkur, málaður í dökkum lit. Þetta leyndist undir mörgum umferðum af málningu og ljóst má því vera að það er langt um liðið síðan það var gert, en áður höfðum við fundið smá bút af þessum sama skrautbekk efst í litlum skáp sem er í þessu sama herbergi. Vinna við glugga í þessum rýmum eru langt komin, einungis eftir að lakka seinustu umferð. Til stendur svo á mánudag að mála seinni umferð á baðstofuna þannig að hún ætti þá að verða þurr og klár sunnudaginn 26. Einnig  stendur til að lakkmála seinustu umferð á glugga í næstu viku. Í hjónakamesinu erum við búnir að slípa einn vegg að hluta til og mála þar eina umferð á smá flöt þannig að þar er gott að sjá hvernig þetta er unnið.                                                                           

Til gamans er svo hér í lokinn er smá fróðleikur varðandi línolíumálningu og önnur nútímalegri málningarefni. Málningin sem við notum í þessu verki er frá Finnskum framleiðanda sem heitir Tikkurilla og fyrir áhugasama heitir efnið því þjála nafni „Lin pellavaöljymaali“ sem samkvæmt google translate þýðir „linolíu hörfræ olíumálning“. Línolía er olía sem unnin er úr hörfræjum og hefur verið notuð sem bindiefni í málningu um aldir. Línolíumálning var og er mikið notuð af myndlistarfólki og einnig við málun gamalla húsa og er það partur af því að velja hráefni sem notuð voru á þeim tíma er húsin voru byggð. Talið er að olíumálning í einhverri mynd hafi verið notuð frá því á 12. öld. Það bindiefni sem tók við af línolíu heitir alkyd og eftir því sem ég best veit hefur það verið í notkun frá því á 19.öld og er notað í framleiðslu en þann dag í dag, þó svo í litlu mæli sé. Alkyd málning er sú málning sem í almennu tali í dag er nefnd olíumálning og leysist upp í terpentínu eins og línolían.

Í málningarframleiðslu nútímans eru notuð önnur bindiefni, en um og upp úr 1960  kom á markað nýtt bindiefni sem heitir akrýl og er sennilega lang algengasta bindiefnið í málningu í dag, en  með því ágæta efni hefst og plastvæðing heimsins og þá um leið framleiðsla á allskonar plastumbúðum  sem síðar reyndist verða einhver mesta umhverfis vá samtímans.