Fréttir

Ljós í myrkri

Það er alltaf blíðviðri í Múlakoti, en þó koma þeir dagar sem manni finnst lognið fara heldur hratt yfir og morguninn núna var einn af þeim morgnum.

Í stað þess að draga sængina yfir höfuð var kveikt upp í arninum og pósturinn lesinn yfir rjúkandi kaffibolla. Og svei mér ef við heyrðum ekki fuglasöng og fundum gróðurangan þegar við opnuðum eitt bréfið. Það var frá Héraðsnefnd Rangæinga, þar sem umsókn sjálfseignarstofnunarinnar um styrk til framkvæmda var samþykkt, kr. 2.000.000.- Eins og nærri má geta kemur svona góður styrkur sér vel næsta sumar þegar byrjað verður á endurbótum innanhúss í elsta húsinu. Það er mikilvægt að finna að endurreisn gamla bæjarins í Múlakoti á sér góða stuðningsaðila í héraði.

Góð kveðja frá Múlakoti

Veðurblíða í Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Veðurblíðan að undanförnu hefur verið hreint með ólíkindum. Þegar fjölmiðlarnir hafa verið fullir af óveðursfréttum höfum við nánast getað gengið með logandi kerti utan húss í blíðunni. Svei mér ef grasið er ekki farið að grænka aftur, a.m.k. hefur grasið í gamla garðinum, þeim hluta sem fékk nýjar þökur í ágústlok, vaxið drjúgt. Þjóðin fagnar á næstunni 100 ára afmæli fullveldis. Skorað hefur verið á landsmenn að gera sér glaðan dag þann 1. desember þess vegna. Ef svo fer sem horfir, ætla ég út, ekki með logandi kerti, heldur með garðsláttuvélina og renna yfir garðinn.
Fyrri myndin er tekin 28. okt. í ljósaskiptunum. Dímon er sem tígulegur, dökkur dreki mót aftanaroðnum himni.


Síðari myndin er tekin 21. nóvember


Góð kveðja frá Múlakoti

Zontakonur úr Reykjavík heimsækja gamla bæinn

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Við fengum góða gesti síðastliðinn laugardag. Mér finnst dálítið freistandi að líta á þá sem fyrstu gesti haustsins, það er eitthvað léttara yfir því en að tala um síðustu gesti sumarsins.Þetta var líka léttur og glaðvær hópur, Zontakonur úr Reykjavík og þeirra gestir. Við vorum líka heppin með veðrið – mér er reyndar sagt að ég segi að það sé alltaf gott veður í Múlakoti, en ýkjulaust, Fljótshlíðin, og þá sérstaklega innhlíðin,  er mjög veðursæl. Hér eru bara tvær áttir, austanátt og vestanátt. Eyjafjallajökul sér fyrir sunnanáttinni og fjallið, ég á e.t.v. að segja Múlakotsheiðin, tekur norðanáttina.

Það var logn og sól þegar hópurinn kom og við tókum strikið beint inn í gamla garðinn og gestirnir gripu strax andann á lofti þegar þeir sáu nýju garðhúsgögnin. Þeim var klappað og strokið og mynduð í bak og fyrir. Og hugsið ykkur bara hvort ég notfæri mér ekki að segja sögur tengdar garðinum og gróðrinum meðan gestirnir láta fara vel um sig á nýjum bekkjum úr 100 ára gömlum reynitrjám.

Síðan fóru allir inn í bæ og þar var talað, spurt og hlegið  af hjartans list.

Góð kveðja frá Múlakoti

Ljósakvöld í Múlakoti 2018

Laugardaginn 1. september sl. var hélt Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti, Ljósakvöld í Múlakoti, en þá er kveikt á ljósum í Guðbjargargarði, flutt nokkur ávörp og boðið upp á tónlistaratriði og kaffiveitingar. Í ár mættu um 80 gestir, börn og fullorðnir og þótti það mjög góð mæting miðað við að allan daginn hafði verið illviðri og úrhelli. Það var því heppilegt að rétt um klukkan 19:30 hætti að rigna, hlaupið var út að þurrka af nýju bekkjunum og borðunum í garðinum og kl. 20 var hátíðin sett. Það var Björn Bjarnason, formaður vinafélagsins, sem flutti ávarp og setti hátíðina en ávarp hans má finna hér. Síðan talaði Vigdís Jónsdóttir um sín tengsl við staðinn og erindi hennar má lesa hér. Loks lék Grétar Geirsson staðarlistamaður dillandi tónlist á harmonikku. Grétar er alveg ómissandi á Ljósakvöldi.

Hápunktur kvöldsins var þó í höndum Þuríðar Lárusdóttur og Hrefnu Jónsdóttur sem sáu um kaffiveitingarnar, en Hrefna bakaði ástarpunga ásamt Arndísi Finnsson.
Nýju húsgögnin úr reynivið úr garðinum, smíðuð af Skúla Jónssyni, voru tekin í notkun. Sama má segja um“ nýja“ hliðið sem stjórnarmaðurinn Hans Magnússon hefur gefið nýtt líf.

Hópur frá Garðyrkjuskólanum vann í garðinum

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Veðurspáin fyrir daginn lofaði ekki góðu, rok og rigning og von á 50 manna gengi frá Garðyrkjuskólanum, við supum hveljur. Langþráð heimsókn skólans var samt í höfn , verkefnin yfrið nóg og Ljósakvöld eftir 5 daga. Á óskalista var hellulögn, endurgerð grasflata, nýmyndun blómabeða og gróðursetning í þau. Í stuttu máli, allt tókst þetta. Hellulögn nýja dvalarsvæðisins á gamla setusvæði garðsins var lykilatriði, sem tókst ótrúleg vel.

Steina-Steinn, Þorsteinn Jónsson, lagði lokahönd á undirbúning lagnar á hellum frá Steypustöðinni og stjórnaði nemendum, jafnt á blómaskreytingabraut sem grjóthleðslubraut, Ágústa  mundaði torfsögina af ótrúlegri leikni á þökurúllurnar frá Guðmundi hjá Torfi og nemendur hlupu um víðan völl eftir leiðbeiningum hennar, Björgvin og allir hinir leiðbeinendurnir höfðu auga á hverjum fingri og Jonni hjálaði þeim sem þurftu að komast í rólegu deildina, fór með þau á hlutlaust svæði og kynnti Trjásafnið fyrir uppgefnum. Staðarhaldarinn sjálfur, Gurrý í garðinum, stjórnaði gerð nýrra blómabeða og Ingólfur frá Engi gróðursetti af miklum móð undir stjórn fagurkera úr kvennaliðinu. Það var svangur og aðframkominn hópur sem settist inn í Múlakotsbæinn í hádegishlé og renndi niður grænmetissúpu, sem ein vina Múakots, Auðbjörg í Kirkjulækjarkoti, töfraði fram. Hópurinn var svo stór að matsalurinn hrökk ekki til, við þurftum að „dekka upp í  vestra“.Já, þessi stóri hópur kom ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma. Hann á skilið gullmedalíu fyrir afrekin.

Bestu kveðjur frá Múlakoti

Heimildarmynd um ferðir Johannesar Larsen um íslenskar söguslóðir

Heimildarmynd um ferðir danska málarans Johannesar Larsen um íslenskar söguslóðir verður synd 21. júní kl. 20:00 í Norræna húsinu.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir! Ath. að viðburðurinn fer fram á dönsku.

Danski kvikmyndasmiðurinn Erik Skibsted hefur nú í samvinnu við rithöf­undinn Vibeke Nør­gaard Nielsen lokið gerð fallegrar heimildar­myndar um ferðir listmálarans Johannesar Larsen um slóðir Íslendinga sagna á árunum 1927 og 1930. Höfundarnir sýna myndina í Norræna húsinu 21. júní nk. og færa hana Íslendingum að gjöf á aldarafmæli fullveldis­ins.

Það voru þeir Gunnar Gunnarsson skáld og danski rithöfundurinn Johannes V. Jensen sem höfðu frumkvæði að þriggja binda viðhafnarútgáfu Íslendinga sagna á dönsku í tilefni af þúsund ára afmæli Alþingis, De islandske Sagaer, 1930-1932. Þeir fengu listmálarann Johannes Larsen til að prýða verkið með pennateikningum af vettvangi sagnanna eins og hinir fornu sögu­­staðir komu honum fyrir sjónir. Í tvö sumur fór Larsen um landið með fylgdar­manni sínum, Ólafi Túbals bónda og málara í Múlakoti, og lauk þá alls við rúmlega 300 teikningar. En Larsen gerði fleira, hann hélt einnig dag­bækur. Með eftirrit þeirra í höndum kom Vibeke Nør­gaard Nielsen hingað og þræddi fótspor Larsens. Það tók hana fimm sumur. Að því loknu skrifaði hún bók um Íslandsferðir Larsens, Sagafærden, 2004. Bókin kom út á íslensku í þýðingu Sigurlínar Sveinbjarnardóttur, Lista­maður á sögu­slóðum, 2015. Síðar varð kvikmyndasmiðurinn Erik Skibsted á vegi bókar­höfundar, og með þeim tókst samvinna um gerð myndarinnar Sagafærden sem fjallar um Johannes Larsen og Íslandsdvöl hans. Sýning myndar­innar tekur 75 mínútur, og þar ber margt fyrir augu, heimili Larsens í Kerte­minde og ferða­leiðir hans hér frá Vík í suðri norður til Mývatns.

Í kvikmyndinni er einnig getið um bók, Martin A. Hansens og Sven Havsteens Mikkelsens, sem var þýdd á Íslensku, 1984, af Hirti Pálssyni, Á ferð um Ísland. Árið 1930 kom Sven Havsteen Mikkelsen mjög ungur til Kerteminde, til þess að nema hjá Johannesi Larsen og Fritz Syberg. Þá sá hann, sem einn af þeim fyrstu, Larsens teikningar frá Íslandi. Árið 1948 kemur Sven Havsteen Mikkelsen aftur til Kerteminde. Að þessu sinni til að nema tréskurð. Sven Havsteen Mikkelsen fór svo seinna, saman með Martin A. Hansen til Íslands, til þess að teikna fyrir bókina “Rejse paa Ísland”. Þeir heimsóttu fyrir ferðina, Johannes Larsen og lánuðu dagbækur hans og kort frá sögu ferðalaginu árin 1927 og 1930.

Erik Skibsted hefur næma tilfinningu fyrir myndefninu og tekst í verki sínu að fanga náttúru landsins og íslenskt andrúm með þeim hætti að úr verður hugstæð mynd um kynni hins danska listmálara af landinu.