Dagur mikilla átaka

Í Múlakoti er mikið um að vera þessa dagana, ekki aðeins hjá fuglunum, heldur líka á framkvæmdasviðinu.

Nýr rafstrengur er kominn heim að húsi og Einar rafvirki mun leika listir sínar með hann. Þar með verður unnt að setja upp varmadælu og koma  dálítilli velgju í elsta húsið þannig að unnt verður að vinna innan húss.

En hitinn er ekki það eina, það þurfti að flytja burt húsgögn og fjarlægja veggfóður og striga af veggjum og loftum og dúk af gólfum. Þá fyrst er unnt að meta ástand panels og gólfborða, hve mikið þarf að endurnýja. Vaskir piltar í meistaraflokki knattspyrnufélags Rangæinga tóku hreinsunarstarfið að sér, þeir unnu hér síðasta föstudags- og sunnudagskvöld, 6 menn hvort kvöld. Þessir drengir eru algjörar hetjur, þeir létu ryk og þrengsli ekkert á sig fá. Þegar verkinu var lokið blasti við okkur algjörlega annar bær, önnur veggáferð, aðrir litir.

Baðstofan er með fallega bláum veggpanel og bleikdrapplituðum neðri hluta. Þessir veggfletir eru aðskildir með stokklista og gerð panelsins er mismunandi ofan og neðan stokklistans. Þessi bleiki litur er þó ekki upprunalegur, bak við ofn kom í ljós dökkbrúnn litur.

Hjónakamersið er í mjög fölbláum lit. Þegar við sýndum sérfræðingi þessar myndir efaðist hann um að liturinn væri upprunalegur. Og viti menn, þegar ofninn var fjarlægður, komu aðrir litir í ljós.

Loks er mynd úr stofu. Þessi veggur er klæddur heilum panel en annar veggur er með tvískiptan panel.

Nú þegar smiðirnir eru komnir til starfa koma örugglega fleiri hlutir í ljós.

Góð kveðja frá Múlakoti

Fjölgun íbúa í Múlakoti

Það er mikið að gerast í Múlakoti þessa dagana. Maður nánast tiplar á tánum um grund og móa og skimar á varðbergi úr sláttuvélarsætinu.

Ég kynnti fyrir ykkur um daginn herra Sokka og frú. En nú þarf ég að leiðrétta mig, frú Sokku og eiginmann, það sást til þeirra!. En nú hefur frú Sokka ekki sést þónokkurn tíma og ég var farin að hafa áhyggjur af velferð hennar. En viti menn, fyrir 3 dögum var Stefán að slá niðri á túni. Stendur frú Sokka þá ekki allt í einu upp úr óslægjunni  og gaf með látbragði tvímælalaust til kynna að nú væri hann farinn að nálgast heimkynni hennar óþarflega mikið. Henni tókst að herja út úr honum u.þ.b. 30 fermetra spildu, svona eins og góða stúdentaíbúð, fyrir sig og fjölskylduna. Og viti menn, hann  veit um 3-4 önnur tjaldhreiður á víð og dreif um túnið.

Ekki flókin hreiðurgerð hjá tjaldinum

Verra er það þó með Garðars-fjölskylduna. Þegar við ætluðum að tæta grænmetisgarðinn fyrir liðlega 15 dögum síðan rak ég augun í að tjaldur hafði gert sé hreiður í  kartöflubeðinu miðju. Eftir neyðarfund í eldhúsinu var ákveðið að tæta garðinn eftir sem áður, en skilja eftir góða ræmu fyrir tjaldinn, sem fékk nafnið Garðar þegar hann var tekinn inn í Múlakotssamfélagið. Eftir nokkra daga þegar tjaldurinn virtist hafa sætt sig við jarðvinnsluna, voru settar niður kartöflur og sáð gulrótum og breitt yfir. Tjaldurinn hefur hingað til bara brugðið sér örlítið af bæ ef við höfum nálgast hreiðrið of mikið.

Gæsin á sér skemmtilega sögu. Þegar Eyjafjallajökull gaus, sællar minningar, vorið 2010, voru allt í einu tún og brekkur full af gæs, sem vagaði hér um öskublaut, og greinilega með heimþrá eftir heiðalendunum sínum hér inn af. Þónokkrar gæsamömmur komu upp ungum og sáust á tjörninni okkar. Síðan hefur gæsinni bara fjölgað. Í gær fann eiginmaðurinn gæsahreiður í jaðri eins skjólbeltisins á túninu, 4 egg. Hvað svo verður veit nú enginn.

Gæsahreiður

Við erum með hettumáva-nýlendu í tjarnarhólmanum og dauðsjáum núna eftir að hafa búið hólmann til. Það er nógu slæmt að hafa hrafninn vokkandi yfir hverju hreiðri sem hann finnur þótt hettumávurinn bætist ekki við.

Í morgun sáum við svo út um gluggann á bílskúrnum að það var komið þrastarhreiður á gluggasilluna, 5 egg, vel falin bak við purpurabroddinn. Annars eru þrastarhreiður úti um allt, í reynitrjám í gamla garðinum , birki og greni hér heima við. Það er naumast tími til að sofa svona um blánóttina, við teljum okkur vera á „barnapíuvaktinni“.

Eggin 5 í þrastarhreiðrinu

Góð kveðja frá Múlakoti

Fréttir frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Í póstum til vina Múlakots hefur oft verið minnst á garðyrkjukonuna Guðbjörgu Þorleifsdóttur í Múlakoti. Það er ekki að undra því hún var sannur brautryðjandi í garðrækt. Allt virtist leika í höndunum á henni hvað ræktun snerti og það orð komst á að hefði einhver planta, sem var ný í ræktun á Íslandi, ekki lifað hjá Guðbjörgu, væri vonlítið að hún þrifist annars staðar.

En það var fleira sem lék í höndunum á þessari konu. Lítið hefur verið fjallað um vefnaðarkonuna Guðbjörgu, enda fátt til í Múlakoti, sem minnir á þann þátt af starfi hennar, nema slitrur af vefstól. Á síðasta aðalfundi Vinafélagsins, undir liðnum önnur mál, sýndi Andri Guðmundsson, safnstjóri á Skógum, ferðaföt Ólafs Túbals, sem þar eru varðveitt. Klæðið er ofið af Guðbjörgu, einstaklega fallegt og vel varðveitt.

Ferðaföt Ólafs Túbals

Sjálfseignarstofnuninni hefur nýlega áskotnast meira en 100 ára gamall rokkur, sem Sigurður Karl Sigurkarlsson gaf, til minningar um þann mikilvæga þátt heimilisiðnaðarins, sem ullarvinnslan var. Rokkur Guðbjargar, eða Jónínu vinnukonu, sem báðar spunnu mikið, hefur ekki varðveist í Múlakoti. Vinafélagið greiddi viðgerð á rokknum og hann var líka til sýnis á aðalfundinum.

Þorsteinn Jónsson og grafan góða

Sumarstarfið er hafið í Múlakoti og fyrsta skóflustungan hefur verið tekin í orðsins fyllstu merkingu. Til að unnt sé að hefja viðgerðir innan húss í elsta húsinu þarf að vera unnt að halda á því dálítilli velgju og til þess þarf rafmagn. Stysta leiðin með nýja heimtaug var eftir tröðinni austan við garðinn. Sá hængur er á að tröðin er aðeins 170 cm á breidd svo vandi er að koma við tækjum. Þarna læddist Þorsteinn Jónsson um með 150 cm breiða gröfu og gróf skurð fyrir strenginn, leiki aðrir það eftir honum. Við þekkjum verkin hans Steina, síðan hann lagaði hleðslurnar í kjallara gamla hússins og vitum að hann getur framkvæmt ótrúlegustu hluti.

4. aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti

4. aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti var haldinn á Kvoslæk 3. maí sl. Hér fyrir neðan má finna ræðu Björns Bjarnasonar, formanns Vinafélagsins, frá fundinum

Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti var stofnað 21. febrúar 2015. Tilgangur þess er að styðja sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti til að endurbæta, varðveita og sjá um rekstur gamla bæjarins í Múlakoti á þann veg að sem mest starfsemi geti farið fram í húsinu og tengdum mannvirkjum til að standa undir rekstrarkostnaði. Þá skal stefnt að því að komið verði fyrir í húsinu myndum og munum sem tengjast sérstaklega sögu hússins og e.t.v. fleiru sem vel þykir fara innan húss og utan. Fjár til starfseminnar skal afla með félagsgjöldum og frjálsum framlögum félagsmanna ásamt styrkjum frá opinberum aðilum.

Samkvæmt félagatali eru félagsmenn alls 106 þar af 4 fyrirtæki og 7 makar.

Í fyrra var aðalfundurinn haldinn 17. maí og að honum loknum kom stjórn félagsins saman og skipti með sér verkum:
Björn Bjarnason var kjörinn formaður, Kristín Þórðardóttir ritari og Sigríður Hjartar gjaldkeri. Meðstjórnendur eru Þórður Helgason og Hans G. Magnússon, í varstjórn eru Hrefna Jónsdóttir og Óskar Pálsson. Vil ég þakka þessu ágæta fólki gott samstarf á liðnu starfsári og þó sérstaklega Sigríði Hjartar sem heldur á einstakan hátt sambandi við félagsmenn með tölvubréfum sínum og miðlun upplýsinga um það sem gerist í Múlakoti. Fyrir utan allt annað sem hún og Stefán Guðbergsson, maður hennar, gera á staðnum. Í fyrra greiddu til dæmis 220 manns fyrir leiðsögn í Múlakoti og hvílir hún að mestu á Sigríði.

Starfsemi félagsins er í föstum skorðum og ber þar ljósakvöldið sem haldið er fyrsta laugardag í september hæst. Á þessu ári verður það laugardaginn 7. september og hefst klukkan 19.30. Í fyrra var ljósakvöldið 1. september, gestir voru um 80 eins og áður þrátt fyrir leiðinlegt veður fyrr um daginn. Les ég hér úr lýsingu á kvöldinu sem Sigríður sendi félagsmönnum í tölvubréfi: „Við fengum nokkrar fyrirspurnir um hvort ekki ætti að blása af Ljósakvöldið vegna veðurs en við þráuðumst við. Og viti menn, klukkan 19:30 hætti að rigna. Það var hlaupið út og þurrkað af nýju borðunum og bekkjum og á mínútunni kl. 20 setti Björn Bjarnason, formaður vinafélagsins, hátíðina. […] Síðan talaði Vigdís Jónsdóttir um sín tengsl við staðinn […] Loks lék Grétar Geirsson staðarlistamaður dillandi tónlist á harmonikku. Grétar er alveg ómissandi á Ljósakvöldi. Hápunktur kvöldsins var þó í höndum Þuríðar Lárusdóttur og Hrefnu Jónsdóttur sem sáu um kaffiveitingarnar, en Hrefna bakaði ástarpunga ásamt Arndísi Finnsson. Nýju húsgögnin úr reynivið úr garðinum, smíðuð af Skúla Jónssyni, voru tekin í notkun. Sama má segja um „nýja“ hliðið sem stjórnarmaðurinn Hans Magnússon hefur gefið nýtt líf. Veðrið hélst gott allan tímann þótt fáeinir regndropar féllu. Þrír nýir félagar skráðu sig til leiks um kvöldið, þeir eru boðnir hjartanlega velkomnir.“

Nýju húsgögnin sem þarna eru nefnd eru garðhúsgögn sem Skúli Jónsson á Þykkvabæ í Landbroti smíðaði, 3 stór borð, 2 m á lengd, 6 bekkir við borðin, 2 minni borð og bekkir við og svo lítill bekkur með baki, sem fékk strax nafnið harmonikkubekkurinn, með Ljósakvöldin í huga. Styrkti vinafélagið gerð húsgagnanna í fyrra og nú í ár viðbót við þau úr trjám í Fanneyjarlundi austan málarastofu Ólafs Túbals. Er mikil prýði af þessum húsgögnum í garðinum fyrir utan notagildi þeirra.

Annað verkefni sem ég vil nefna hér er ákvörðun stjórnarinnar um að sækja um styrk í uppbyggingarsjóð Suðurlands til þriggja verkefna sem stjórnin telur miklu skipta í samræmi við tilgang vinafélagsins:

1. Vinnu við að safna efni frá þeim sem eiga minningar úr Múlakoti þegar þar var rekið gisti- og veitingahús. Starfsemi vinafélagsins hefur leitt í ljós hve margir bera hlýjan hug til Múlakots vegna æskuminninga þaðan. Því fólki fækkar sem á þessar minningar. Hugmyndin er að safna slíkum minningabrotum og birta þau á vefsíðunni mulakot.is. Æskilegt er að ráða einhvern til að vinna þetta verk á tiltölulega skömmum tíma

2. Vegna gesta sem leggja leið sína til að skoða Guðbjargargarð og annað sem Múlakot hefur nú að bjóða telur vinafélagið æskilegt að taka saman stuttan bækling, fjórblöðung með texta og myndum, til að miðla til þeirra sem sækja staðinn heim en þeim fjölgar ár frá ári. Þá mætti einnig nýta kynningarblaðið til að vekja athygli á staðnum með því að leggja blaðið fram með öðru kynningar- og fræðsluefni fyrir ferðamenn.

3. Til að standa betur að kynningu á ljósakvöldinu og einnig til að umbuna listamönnum eða fyrirlesurum sem koma þar fram.

Er skemmst frá því að segja að vinafélagið fékk 200.000 kr. styrk til þessara verkefna og er næsta skref að ýta vinnu við þau úr vör.

Ég er þeirrar skoðunar að kynningarstarf vegna endurreisnarinnar sem nú er unnið að í Múlakoti skipti mestu til að markmið verkefnisins náist. Segja má að það selji sig best sjálft og þess vegna eigi að gera það eins sýnilegt og kostur er. Í fyrra gerðist það til dæmis skömmu eftir ljósakvöldið að vinahjón Sigríðar og Stefáns gáfu félaginu höfðinglega gjöf, hvorki meira né minna en 500.000. krónur. Fyrir hana skal nú formlega þakkað fyrir hönd félagsins.

Á fundi 16. febrúar 2019 fól stjórn formanni að hafa samband við Skógrækt ríkisins og vekja máls á nauðsyn þess að hugað yrði að umhirðu vegna trjásafns skógræktarinnar við Múlakot þar sem gagnkvæmir hagsmunir væru af góðri umhirðu þess og umsýslu vegna gesta í Múlakoti. Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri ríkisins, brást vel og hratt við þessari málaleitan og sagði brýnast að fjarlægja kofann „Hnotukot“, um 80 ára gamlan. Hann væri úr asbesti og því þyrfti að finna aðila með sérstakt leyfi til að rífa hann. Þess vegna yrði verkið líka dýrt. Yrði leitað tilboða í það. Stefna Skógræktarinnar væri að Múlakotsreiturinn yrði svæðinu og Skógræktinni til sóma.

Í sumar, laugardaginn 20. júlí, flytur Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt erindi hér að Kvoslæk sem hann nefnir Konan í garðinum en í fyrra sendi hann frá sér bókina Að búa til ofurlítinn skemmtigarð. Í erindinu víkur hann að Guðbjargargarði í Múlakoti og verður farið í skoðunarferð þangað.

 Að lokum má geta þess að starfandi er Danmerkurdeild í vinafélaginu og sumardaginn fyrsta 2019 var formaður hennar, Vibeke Nörgård Nielsen, heiðruð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn með verðlaunum Jóns Sigurðssonar í þakklætisskyni fyrir störf hennar við kynningu á Íslandi og íslenskri menningu í Danmörku. Vibeke flutti ávarp við stofnun Vinafélagsins á sínum tíma. Við færum henni þakkir og heillaóskir.

Ég ítreka þakkir mínar til stjórnar vinafélagsins og flyt félagsmönnum öllum þakkir fyrir hollustu þeirra við félagið og markmið þess.

Vor í lofti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Ég gat ekki stillt mig. Undanfarna daga hef ég verið úti í garði þegar færi hefur gefist. Ég verð þó að játa að ég kýs helst að hiti sé vel yfir 5° og hvorki rigni eldi né brennisteini. Plönturnar í Guðbjargargarði eru flestar farnar að bæra á sér og þá er eins gott að hafa hraðar hendur við að hreinsa burtu hismið. Ég gæti auðveldlega þegið nokkrar aðstoðarhendur.

Sama gildir um plönturnar í mínum garði. Þar er töluvert af plöntum komið í blóma þar sem ég er mjög veik fyrir vorblómstrandi plöntum. Í dag gat ég ekki stillt mig um að taka myndir af tveimur rósum sem ég hafði hreinsað frá fyrir örfáum dögum. Þetta voru jólarós og páskarós en skógarlyngrósin mín er ekki enn farin að opna blómin þótt sjái í rósrauðan lit.

Auðvitað er ég ekki að tala um eiginlegar rósir – en við stráum um okkur nöfnum eins og sóley, rós og fífill án þess að huga neitt að ættfræðinni, eins og ættfræði er Íslendingum ofarlega í huga. Jólarós og páskarós eru systur, tilheyra Helleborus-fjölskyldunni. Nöfnin vísa í blómgunartímann og ég hef fengið jólarós í fullum blóma á aðfangadag upp í gegnum snjóinn. Þetta er þó í fyrsta skiptið sem ég hef jólarós og páskarós í fullum blóma á páskum. Segir eitthvað um tíðarfarið.
Þessar „rósir“ fara þó ekki út í garð Guðbjargar þar sem ég vil ekki setja þangað plöntur sem ég er ekki viss um að hafi verið komnar í ræktun áður en Guðbjörg andaðist. Bóndarós, sem ekki er þó heldur eiginleg rós, var samt gróðursett þar s.l. haust, hún var komin í ræktun fyrir 1914. Veit einhver hvenær Helleborus var komin í ræktun hér?
Góð kveðja frá Múlakoti

9. apríl 1963

9. apríl skipar sérstakan sess í huga margra garð-og gróðurunnenda af minni kynslóð. Eins og hefur verið í fréttum í dag urðu þennan dag árið 1963 mjög skyndilegar sveiflur í veðrinu. Ofsaveður skall á eins og hendi væri veifað með þeim hörmulegu afleiðingum að 16 sjómenn fórust.

Gróðurfarslegu afleiðingar þessarar skyndilegu veðurbreytingar urðu líka miklar, einkum á Suðurlandi. Vikurnar á undan höfðu verið algjörlega ótrúlega hlýjar, trjágróður hafði vaknað úr vetrardvala og allt var á fleygiferð. Þennan dag féll hitinn um 15 gráður a.m.k. alveg niður í hörkufrost á 8 klst. Það var eins og við manninn mælt, aspir og sitkagreni þurrkuðust  út eins og hendi væri veifað. Garðurinn í Múlakoti slapp ekki við þessar hamfarir frekar en önnur ræktunarsvæði  á Suðurlandi, aspirnar og grenið voru liðin lík.

Ég held að mér höndunum fram yfir 9. apríl, vorhreinsunin bíður enn, en nú fer ég að taka við mér. Ekkert svona áfall verður þetta vor, garðurinn er ekki vaknaður, eins og myndirnar bera með sér, rétt að fyrstu vorblómin eins og hjartafífillinn séu farin að bæra á sér.

Við eigum líka góðan garðvörð, hann herra Sokka Tjaldsson, og konuna hans. Þau hafa sinnt vaktavinnu í garðinum tvö undanfarin sumur og við vonum að þau séu búin að skrifa undir æviráðningu. Sokki er auðþekktur, hann er með hvíta „sportsokka“, merkihringi á báðum leggjum,  en hvort hann er við eina fjölina felldur í kvennamálum vitum við ekki.

Góð kveðja frá Múlakoti

Styrkur frá Minjastofnun

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Það voru að berast góðar fréttir um styrkveitingu Minjastofnunar til friðlýstra húsa fyrir árið 2019.

Úthlutunarnefndin hefur verið okkur hliðholl áður og svo var einnig núna.

Sjálfseignarstofnunin fékk úthlutað fjórum milljónum króna, sem kemur sér sannarlega vel. Þessu verður varið í endurbyggingu elsta hússins, viðgerðir innan húss, og eftir sumarið verður vonandi unnt að sýna gestum og gangandi þann hluta húsnæðisins.

Góð kveðja frá Múlakoti

Gamla hurðin – 2. kafli

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Í kvennablöðum um 1980 var vinsælt að birta myndir fyrir og eftir að hresst var upp á útlit dömu sem farin var að láta á sjá. Meðfylgjandi myndir sýna einmitt eina svona aðgerð. Hurðin góða fyrir og í miðjum klíðum endurvinnslunnar. Nú er sem sagt búið að smíða upp hurðarflekann og næst er að mála gripinn áður en lengra verður haldið.

Svo vel vill til að Múlakotsbærinn á góðan vin sem er með málningu sem sína sérgrein og hann hjálpaði okkur um málningu á hurðina.

Búið var að segja frá skránni og lyklinum sem hvergi finnst. Við fórum með skrána í verslunina Brynju í Reykjavík og viti menn, þeir höfðu á boðstólum nákvæmlega eins skrá. Gripurinn er framleiddur í Svíþjóð, þar sem þessar skrár voru mikið framleiddar á árunum 1850 – 1900 og eru seldar enn í dag, já og nákvæmlega eins lamir eins og hér voru notaðar, hvers vegna á maður að vera að breyta út frá því sem hefur reynst vel?

Í gær fórum við aftur í Brynju til að ná í húnasett sem pantað hafði verið hjá framleiðanda skráarinnar , sérsmíðaðan fyrir útihurðir, sama gerð og verið hafði í hurðinni í upphafi, massífan hún úr messing.

Góð kveðja frá Múlakoti

Hurðin góða

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Sól er farin að hækka á lofti enda kominn Þorri. Í Múlakoti er farið að huga að sumarstörfum, ekki seinna vænna. Ætlunin er að endurgera norðurvegg elsta hússins og fara síðan að huga að því að innanverðu. Þar með er inngangurinn í bíslagið  eða milliganginn kominn á dagskrá og fyrsta verkefnið eftir að þakið er komið í lag er hurðin og glugginn við hliðina. Hurðin er að mörgu leyti andlit hússins og því skiptir miklu að vel sé til vandað og svo var í Múlakoti áður fyrr.

Þegar eigendaskiptin urðu fyrir tæpum 20 árum þurfti að rífa nokkuð af ónýtum húsum, m.a. þurrkhjallinn, sem var hálfhruninn. Þar inni kenndi margra grasa, áburðarpokar í kippum, alls kyns timbur, gamlir bekkir úr matsalnum og allsérstakur timburfleki. Þetta reyndist vera tvöfaldur hurðarfleki, annars vegar voru borðin látin mynda tígulmynstur en hins vegar voru breiðari, lóðrétt borð með þremur láréttum borðum. Hurðarflekinn sem slíkur var gjörónýtur, fótstykkið fúið og hornin horfin en samt tókum við hann til handargagns, enda minnti hann okkur á gömlu kirkjuhurðirnar frá því á 19. öld, sem voru í ýmsum hefðarkirkjum eins og Skálholti. Þegar við fundum litla ljósmynd af dreng og hundi á tröppunum við bíslagið sannfærðumst við um að þar hefði hurðin verið upphaflega. Hurðarflekinn beið svo síns vitjunartíma í forstofunni í nýjasta hluta hótelsins og þar lenti hann á mynd vorið 2010.

Nú er Sigmundur smiðurinn okkar búinn að endursmíða hurðarflekann og næsta skref er að huga að hurðarlásnum. Við bárum okkur upp við Hjörleif Stefánsson arkitekt, sem spurði hvort lásinn væri enn í hurðinni og viti menn, þarna var hann. Hann var settur í hendurnar á Hans í Kirkjulækjarkoti, sem er í stjórn vinafélagsins og helsti járnsmiður svæðisins. Hans setti lásinn í saltsýrubað til að þrífa burt ryðið, þurrkaði hann og smurði og viti menn, lásinn er hjólliðugur og virðist í fullkomnu lagi. Næsta mál á dagskrá er að leita til lásasmiða í höfuðborginni til að vita  hvort ekki finnist lykill sem gengur að, því hann hefur ekki komið í leitirnar hérna.

Hurðarkveðjur frá Múlakoti

Nýárskveðja frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Með þessum pósti sendum við okkar bestu nýjárskveðjur og þökkum fyrir samskiptin á liðnu ári og allar heimsóknirnar. Það er fallegt veður í Fljótshlíðinni í dag eins og svo oft áður. Sólin glampar á glugga og þil bæjarhúsanna og brekkurnar eru skreyttar ísfossum, sá sem myndin er af nær líklega 7 m hæð, myndarleg grýlukerti það. Svo hafa verið gestir í Múlakotsgarðinum í dag og auðvitað ýmsir sem hafa ekið upp að Gluggafossi, en það gerir fólk jafnvel í niðamyrkri.

Framundan er Þorrinn, bóndadagur er fyrsti dagur 14. viku vetrar, föstudagurinn 25. janúar, og því fara Þorrablótin að hefjast.  Í Rangárþingi eystra verða ef að líkum lætur haldin 6 Þorrablót auk einkablóta. Í fyrra kom í heimsókn í Múlakotsbæinn 12 manna hópur sem hélt sitt einkablót í Fljótshlíðinni,er þetta ekki eitthvað til eftirbreytni? Eins erum við farin að fá fyrirspurnir varðandi heimsóknir sumarsins, afmælisárgangar, kvenfélög, gönguhópar og spilaklúbbar eru farnir að spá í spilin.

Góð kveðja frá Múlakoti