9. apríl 1963

9. apríl skipar sérstakan sess í huga margra garð-og gróðurunnenda af minni kynslóð. Eins og hefur verið í fréttum í dag urðu þennan dag árið 1963 mjög skyndilegar sveiflur í veðrinu. Ofsaveður skall á eins og hendi væri veifað með þeim hörmulegu afleiðingum að 16 sjómenn fórust.

Gróðurfarslegu afleiðingar þessarar skyndilegu veðurbreytingar urðu líka miklar, einkum á Suðurlandi. Vikurnar á undan höfðu verið algjörlega ótrúlega hlýjar, trjágróður hafði vaknað úr vetrardvala og allt var á fleygiferð. Þennan dag féll hitinn um 15 gráður a.m.k. alveg niður í hörkufrost á 8 klst. Það var eins og við manninn mælt, aspir og sitkagreni þurrkuðust  út eins og hendi væri veifað. Garðurinn í Múlakoti slapp ekki við þessar hamfarir frekar en önnur ræktunarsvæði  á Suðurlandi, aspirnar og grenið voru liðin lík.

Ég held að mér höndunum fram yfir 9. apríl, vorhreinsunin bíður enn, en nú fer ég að taka við mér. Ekkert svona áfall verður þetta vor, garðurinn er ekki vaknaður, eins og myndirnar bera með sér, rétt að fyrstu vorblómin eins og hjartafífillinn séu farin að bæra á sér.

Við eigum líka góðan garðvörð, hann herra Sokka Tjaldsson, og konuna hans. Þau hafa sinnt vaktavinnu í garðinum tvö undanfarin sumur og við vonum að þau séu búin að skrifa undir æviráðningu. Sokki er auðþekktur, hann er með hvíta „sportsokka“, merkihringi á báðum leggjum,  en hvort hann er við eina fjölina felldur í kvennamálum vitum við ekki.

Góð kveðja frá Múlakoti

Styrkur frá Minjastofnun

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Það voru að berast góðar fréttir um styrkveitingu Minjastofnunar til friðlýstra húsa fyrir árið 2019.

Úthlutunarnefndin hefur verið okkur hliðholl áður og svo var einnig núna.

Sjálfseignarstofnunin fékk úthlutað fjórum milljónum króna, sem kemur sér sannarlega vel. Þessu verður varið í endurbyggingu elsta hússins, viðgerðir innan húss, og eftir sumarið verður vonandi unnt að sýna gestum og gangandi þann hluta húsnæðisins.

Góð kveðja frá Múlakoti

Gamla hurðin – 2. kafli

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Í kvennablöðum um 1980 var vinsælt að birta myndir fyrir og eftir að hresst var upp á útlit dömu sem farin var að láta á sjá. Meðfylgjandi myndir sýna einmitt eina svona aðgerð. Hurðin góða fyrir og í miðjum klíðum endurvinnslunnar. Nú er sem sagt búið að smíða upp hurðarflekann og næst er að mála gripinn áður en lengra verður haldið.

Svo vel vill til að Múlakotsbærinn á góðan vin sem er með málningu sem sína sérgrein og hann hjálpaði okkur um málningu á hurðina.

Búið var að segja frá skránni og lyklinum sem hvergi finnst. Við fórum með skrána í verslunina Brynju í Reykjavík og viti menn, þeir höfðu á boðstólum nákvæmlega eins skrá. Gripurinn er framleiddur í Svíþjóð, þar sem þessar skrár voru mikið framleiddar á árunum 1850 – 1900 og eru seldar enn í dag, já og nákvæmlega eins lamir eins og hér voru notaðar, hvers vegna á maður að vera að breyta út frá því sem hefur reynst vel?

Í gær fórum við aftur í Brynju til að ná í húnasett sem pantað hafði verið hjá framleiðanda skráarinnar , sérsmíðaðan fyrir útihurðir, sama gerð og verið hafði í hurðinni í upphafi, massífan hún úr messing.

Góð kveðja frá Múlakoti

Hurðin góða

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Sól er farin að hækka á lofti enda kominn Þorri. Í Múlakoti er farið að huga að sumarstörfum, ekki seinna vænna. Ætlunin er að endurgera norðurvegg elsta hússins og fara síðan að huga að því að innanverðu. Þar með er inngangurinn í bíslagið  eða milliganginn kominn á dagskrá og fyrsta verkefnið eftir að þakið er komið í lag er hurðin og glugginn við hliðina. Hurðin er að mörgu leyti andlit hússins og því skiptir miklu að vel sé til vandað og svo var í Múlakoti áður fyrr.

Þegar eigendaskiptin urðu fyrir tæpum 20 árum þurfti að rífa nokkuð af ónýtum húsum, m.a. þurrkhjallinn, sem var hálfhruninn. Þar inni kenndi margra grasa, áburðarpokar í kippum, alls kyns timbur, gamlir bekkir úr matsalnum og allsérstakur timburfleki. Þetta reyndist vera tvöfaldur hurðarfleki, annars vegar voru borðin látin mynda tígulmynstur en hins vegar voru breiðari, lóðrétt borð með þremur láréttum borðum. Hurðarflekinn sem slíkur var gjörónýtur, fótstykkið fúið og hornin horfin en samt tókum við hann til handargagns, enda minnti hann okkur á gömlu kirkjuhurðirnar frá því á 19. öld, sem voru í ýmsum hefðarkirkjum eins og Skálholti. Þegar við fundum litla ljósmynd af dreng og hundi á tröppunum við bíslagið sannfærðumst við um að þar hefði hurðin verið upphaflega. Hurðarflekinn beið svo síns vitjunartíma í forstofunni í nýjasta hluta hótelsins og þar lenti hann á mynd vorið 2010.

Nú er Sigmundur smiðurinn okkar búinn að endursmíða hurðarflekann og næsta skref er að huga að hurðarlásnum. Við bárum okkur upp við Hjörleif Stefánsson arkitekt, sem spurði hvort lásinn væri enn í hurðinni og viti menn, þarna var hann. Hann var settur í hendurnar á Hans í Kirkjulækjarkoti, sem er í stjórn vinafélagsins og helsti járnsmiður svæðisins. Hans setti lásinn í saltsýrubað til að þrífa burt ryðið, þurrkaði hann og smurði og viti menn, lásinn er hjólliðugur og virðist í fullkomnu lagi. Næsta mál á dagskrá er að leita til lásasmiða í höfuðborginni til að vita  hvort ekki finnist lykill sem gengur að, því hann hefur ekki komið í leitirnar hérna.

Hurðarkveðjur frá Múlakoti

Nýárskveðja frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Með þessum pósti sendum við okkar bestu nýjárskveðjur og þökkum fyrir samskiptin á liðnu ári og allar heimsóknirnar. Það er fallegt veður í Fljótshlíðinni í dag eins og svo oft áður. Sólin glampar á glugga og þil bæjarhúsanna og brekkurnar eru skreyttar ísfossum, sá sem myndin er af nær líklega 7 m hæð, myndarleg grýlukerti það. Svo hafa verið gestir í Múlakotsgarðinum í dag og auðvitað ýmsir sem hafa ekið upp að Gluggafossi, en það gerir fólk jafnvel í niðamyrkri.

Framundan er Þorrinn, bóndadagur er fyrsti dagur 14. viku vetrar, föstudagurinn 25. janúar, og því fara Þorrablótin að hefjast.  Í Rangárþingi eystra verða ef að líkum lætur haldin 6 Þorrablót auk einkablóta. Í fyrra kom í heimsókn í Múlakotsbæinn 12 manna hópur sem hélt sitt einkablót í Fljótshlíðinni,er þetta ekki eitthvað til eftirbreytni? Eins erum við farin að fá fyrirspurnir varðandi heimsóknir sumarsins, afmælisárgangar, kvenfélög, gönguhópar og spilaklúbbar eru farnir að spá í spilin.

Góð kveðja frá Múlakoti

Ljós í myrkri

Það er alltaf blíðviðri í Múlakoti, en þó koma þeir dagar sem manni finnst lognið fara heldur hratt yfir og morguninn núna var einn af þeim morgnum.

Í stað þess að draga sængina yfir höfuð var kveikt upp í arninum og pósturinn lesinn yfir rjúkandi kaffibolla. Og svei mér ef við heyrðum ekki fuglasöng og fundum gróðurangan þegar við opnuðum eitt bréfið. Það var frá Héraðsnefnd Rangæinga, þar sem umsókn sjálfseignarstofnunarinnar um styrk til framkvæmda var samþykkt, kr. 2.000.000.- Eins og nærri má geta kemur svona góður styrkur sér vel næsta sumar þegar byrjað verður á endurbótum innanhúss í elsta húsinu. Það er mikilvægt að finna að endurreisn gamla bæjarins í Múlakoti á sér góða stuðningsaðila í héraði.

Góð kveðja frá Múlakoti

Veðurblíða í Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Veðurblíðan að undanförnu hefur verið hreint með ólíkindum. Þegar fjölmiðlarnir hafa verið fullir af óveðursfréttum höfum við nánast getað gengið með logandi kerti utan húss í blíðunni. Svei mér ef grasið er ekki farið að grænka aftur, a.m.k. hefur grasið í gamla garðinum, þeim hluta sem fékk nýjar þökur í ágústlok, vaxið drjúgt. Þjóðin fagnar á næstunni 100 ára afmæli fullveldis. Skorað hefur verið á landsmenn að gera sér glaðan dag þann 1. desember þess vegna. Ef svo fer sem horfir, ætla ég út, ekki með logandi kerti, heldur með garðsláttuvélina og renna yfir garðinn.
Fyrri myndin er tekin 28. okt. í ljósaskiptunum. Dímon er sem tígulegur, dökkur dreki mót aftanaroðnum himni.


Síðari myndin er tekin 21. nóvember


Góð kveðja frá Múlakoti

Zontakonur úr Reykjavík heimsækja gamla bæinn

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Við fengum góða gesti síðastliðinn laugardag. Mér finnst dálítið freistandi að líta á þá sem fyrstu gesti haustsins, það er eitthvað léttara yfir því en að tala um síðustu gesti sumarsins.Þetta var líka léttur og glaðvær hópur, Zontakonur úr Reykjavík og þeirra gestir. Við vorum líka heppin með veðrið – mér er reyndar sagt að ég segi að það sé alltaf gott veður í Múlakoti, en ýkjulaust, Fljótshlíðin, og þá sérstaklega innhlíðin,  er mjög veðursæl. Hér eru bara tvær áttir, austanátt og vestanátt. Eyjafjallajökul sér fyrir sunnanáttinni og fjallið, ég á e.t.v. að segja Múlakotsheiðin, tekur norðanáttina.

Það var logn og sól þegar hópurinn kom og við tókum strikið beint inn í gamla garðinn og gestirnir gripu strax andann á lofti þegar þeir sáu nýju garðhúsgögnin. Þeim var klappað og strokið og mynduð í bak og fyrir. Og hugsið ykkur bara hvort ég notfæri mér ekki að segja sögur tengdar garðinum og gróðrinum meðan gestirnir láta fara vel um sig á nýjum bekkjum úr 100 ára gömlum reynitrjám.

Síðan fóru allir inn í bæ og þar var talað, spurt og hlegið  af hjartans list.

Góð kveðja frá Múlakoti

Ljósakvöld í Múlakoti 2018

Laugardaginn 1. september sl. var hélt Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti, Ljósakvöld í Múlakoti, en þá er kveikt á ljósum í Guðbjargargarði, flutt nokkur ávörp og boðið upp á tónlistaratriði og kaffiveitingar. Í ár mættu um 80 gestir, börn og fullorðnir og þótti það mjög góð mæting miðað við að allan daginn hafði verið illviðri og úrhelli. Það var því heppilegt að rétt um klukkan 19:30 hætti að rigna, hlaupið var út að þurrka af nýju bekkjunum og borðunum í garðinum og kl. 20 var hátíðin sett. Það var Björn Bjarnason, formaður vinafélagsins, sem flutti ávarp og setti hátíðina en ávarp hans má finna hér. Síðan talaði Vigdís Jónsdóttir um sín tengsl við staðinn og erindi hennar má lesa hér. Loks lék Grétar Geirsson staðarlistamaður dillandi tónlist á harmonikku. Grétar er alveg ómissandi á Ljósakvöldi.

Hápunktur kvöldsins var þó í höndum Þuríðar Lárusdóttur og Hrefnu Jónsdóttur sem sáu um kaffiveitingarnar, en Hrefna bakaði ástarpunga ásamt Arndísi Finnsson.
Nýju húsgögnin úr reynivið úr garðinum, smíðuð af Skúla Jónssyni, voru tekin í notkun. Sama má segja um“ nýja“ hliðið sem stjórnarmaðurinn Hans Magnússon hefur gefið nýtt líf.

Hópur frá Garðyrkjuskólanum vann í garðinum

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Veðurspáin fyrir daginn lofaði ekki góðu, rok og rigning og von á 50 manna gengi frá Garðyrkjuskólanum, við supum hveljur. Langþráð heimsókn skólans var samt í höfn , verkefnin yfrið nóg og Ljósakvöld eftir 5 daga. Á óskalista var hellulögn, endurgerð grasflata, nýmyndun blómabeða og gróðursetning í þau. Í stuttu máli, allt tókst þetta. Hellulögn nýja dvalarsvæðisins á gamla setusvæði garðsins var lykilatriði, sem tókst ótrúleg vel.

Steina-Steinn, Þorsteinn Jónsson, lagði lokahönd á undirbúning lagnar á hellum frá Steypustöðinni og stjórnaði nemendum, jafnt á blómaskreytingabraut sem grjóthleðslubraut, Ágústa  mundaði torfsögina af ótrúlegri leikni á þökurúllurnar frá Guðmundi hjá Torfi og nemendur hlupu um víðan völl eftir leiðbeiningum hennar, Björgvin og allir hinir leiðbeinendurnir höfðu auga á hverjum fingri og Jonni hjálaði þeim sem þurftu að komast í rólegu deildina, fór með þau á hlutlaust svæði og kynnti Trjásafnið fyrir uppgefnum. Staðarhaldarinn sjálfur, Gurrý í garðinum, stjórnaði gerð nýrra blómabeða og Ingólfur frá Engi gróðursetti af miklum móð undir stjórn fagurkera úr kvennaliðinu. Það var svangur og aðframkominn hópur sem settist inn í Múlakotsbæinn í hádegishlé og renndi niður grænmetissúpu, sem ein vina Múakots, Auðbjörg í Kirkjulækjarkoti, töfraði fram. Hópurinn var svo stór að matsalurinn hrökk ekki til, við þurftum að „dekka upp í  vestra“.Já, þessi stóri hópur kom ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma. Hann á skilið gullmedalíu fyrir afrekin.

Bestu kveðjur frá Múlakoti