Skammdegið hefur lagst að með öllum sínum þunga og á
rigningardegi er æði dimmt yfir. Jafnvel í bjartviðri kemst sólin ekki yfir
hákoll Jökulsins, en hún sést samt þegar vestur fyrir fjallsranann er komið og
sólsetrið getur verið ótrúlega litskrúðugt.
Það gerist heldur ekkert sérstakt á framkvæmdasviðinu hér í
Múlakoti, þótt dælan sé látin ganga allan sólarhringinn. Þar á ég við
varmadæluna, sem gengur stöðugt á tempruðum hita og þurrkar elsta húsið smám
saman.
Við erum helst að vinna við heimasíðuna, og ég er sannfærð
um að margir geta lagt okkur lið með því að rifja upp endurminningar tengdar
Múlakoti. Við tökum fegins höndum á móti texta og/ eða myndum.
Daði Sigurðsson fyrrum bóndi á Barkarstöðum sendi okkur
línu. Sem góður nágranni á hann margar minningar tengdar íbúum Múlakoti
og hann rifjaði upp minningar tengdar Túbal Magnússyni, en þeim fækkar
stöðugt,sem kynntust honum í lifanda lífi.
Ýmsir gestir sem koma í Múlakot í fyrsta skiptið spyrja um
nafnið Túbal, enda eru þeir varla margir sem bera nafnið. Við skyndileit í
Íslendingabók fannst enginn.
Túbal Magnússon, eiginmaður Guðbjargar bar þetta óvenjulega
nafn og börn hans tóku það upp sem ættarnafn, eða fjölskyldunafn, eins og
algengt var á fyrri hluta 20. aldar og kölluðu sig Túbals, en Reynir, sonur
Ólafs, var líklega sá síðasti sem notaði fjölskyldunafnið stöku sinnum.
Á bak við nafnið er dálítil saga. Túbal, sem hét fullu nafni
Túbal Karl, var fæddur 31.12.1867 á Stóru-Vatnsleysu í Gullbringusýslu.
Foreldrar hans voru skráð í dvöl á Stóru-Vatnsleysu, þau Valgerður Tómasdóttir
og Magnús Eyjólfsson, ættaður úr Fljótshlíð. Þau voru ógift.
Magnús hafði áður eignast son sem fékk nafnið Túbal Kain, en
drengurinn dó kornungur. Nú myndu einhverjir sperra eyrun því Kains nafnið
tengja menn helst við Kain, son Adams og Evu, sem var fyrsti bróðurmorðingi
sköpunarsögunnar. Ættleggur Kains er rakinn í fyrstu Mósebók og þar er nefndur
afkomandi í sjötta lið Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar
tól. Magnús Eyjólfsson var einn helsti gullsmiður Suðurnesja og hefur
e.t.v. viljað gefa syninum heiti málmsmiðs – hins mikla málmsmiðs.
Áður tíðkaðist að börn sem foreldrar gátu ekki séð fyrir voru
send á sveit föður. Alla vega var litli drengurinn með mikla nafnið, Túbal Karl
Magnússon, skráður í prestþjónustubók Breiðabólstaðar árið 1868 sem sveitarbarn
á Kollabæ. Valgerður móðir hans er sömuleiðis skráð í Kollabæ, en fluttist
síðan aftur að Stóru-Vatnsleysu .
Þorleifur, faðir Guðbjargar, var föðurbróðir Túbals, sem varð vinnumaður í Múlakoti og ráðsmaður Þuríðar, móður Guðbjargar, þegar Þorleifur féll frá. Guðbjörg og Túbal tóku við búinu 1897. Túbal andaðist 9. maí 1946.
Greinina má nálgast hér á heimasíðunni undir “Minningar frá Múlakoti” hnappnum.
Góð kveðja frá Múlakoti