Vorboðinn ljúfi

Jónas orti um vorboðann ljúfa – þröstinn góða, en hann er naumast vorboðinn hér í Fljótshlíðinni, mér finnst sem þrestir séu hér meira og minna á vappi allan veturinn, enda dregur Trjásafn Skógræktarinnar í austurbænum til sín alls kyns fugla, miklu fleiri en ég kann að sundurgreina og nefna.

En Jónas orti meira þar sem fuglar koma við sögu. Í síðasta pósti skrifaði ég um atburði dymbilvikunnar. Þeir rifjuðu svo sannarlega upp fyrir mér kvæðið sem ég grét yfir sem telpa, kvæðið um „gæðakonuna góðu“. Þarna horfðum við hreinlega upp á val í vígahuga og þótt fórnarlambið væri ekki rjúpa var það bjargdúfa sem átti sér aðsetur í Trjásafninu, ásamt stórum dúfnahópi.

Nei, vorboðinn ljúfi er í mínum huga eiginlega Sokkaparið okkar. Þetta er a.m.k. þriðja vorið sem herra og frú Sokki hafa glatt okkur með endurkomunni á bæjarhólinn. Þótt söngurinn í Tjaldinum sé ekki beinlínis á lágu nótunum er hann hressandi. Tjaldurinn, sem fékk Sokkanafnið, á það svo sannarlega skilið, hann ber þrjá auðkennishringi, á hægra fæti einn hvítan og á vinstra fæti bæði hvítan og gulan hring. Í fyrra komumst við svo sem að því að það er ekki herra Sokki, heldur frú Sokka sem ber skrautið, en það skiptir ekki öllu, Sokkaparið kom í dymbilvikunni  og stutt er í sumardaginn fyrsta.

Annar vorboði er kominn hingað í Múlakot, þar á ég við smiðina okkar, þá Sigmund og Sigurð. Í dag var fyrsti vinnudagur þeirra á staðnum og hamarshögg og sagarhvinur voru sem ljúfasta tónlist í okkar eyrum, já eiginlega sem fuglasöngur. Í dag eru 10°C á hitamælinum, snjóskaflarnir minnka óðum og fært orðið „réttu leiðina“ niður á þjóðveg. Vorkveðjur frá Múlakoti

Úthlutun úr Húsafriðunarsjóði

Nú er gaman að segja fréttirnar.

Búið er að birta lista yfir úthlutun Húsafriðunarnefndar, en sjálfseignastofnunin sótti um styrk til sjóðsins. Verkefnið fékk myndarlega upphæð í sinn hlut, heilar fjórar milljónir. Þessum fjármunum verður vel varið því þeir munu fara til endurbóta innan húss í elsta húsinu, þessu frá 1897. Við vitum að það þarf að velta við hverri krónu, og gamli bærinn verður varla rukkaður um snjómokstur heldur verður traustið sett á vorrigningar, þótt það sé reyndar frostspá fram yfir helgi.

                Í fyrradag heyrðist í fyrsta vorboðanum hér í Múlakoti, já það fer ekkert á milli mála þegar Tjaldurinn hefur upp raustina. Hvort þetta voru herra og frú Sokki sem glöddu okkur síðastliðið vor veit ég ekki, enn er of mikill snjór kringum  húsið til að þar sé ákjósanlegt lendingarsvæði fyrir Tjalda, en bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga.

Góð kveðja frá Múlakoti

Sjónvarpsdagskráin

Það skyldi þó ekki vera farið að slá alvarlega  út í fyrir mér að vera farin að fjalla um sjónvarpsdagskrána, hvað ætli verði þá næst, fótbolti, eða veðrið, ja, það er nú alltaf hægt að tala um veðrið. En sjónvarpsdagskráin verður samt fyrir valinu og það ekki að ástæðulausu.

Á miðvikudagskvöldið 15. janúar kl. 20.20 verður á dagskrá þáttur sem heitir: „Hver stund með þér“ þar sem flutt verða lög Önnu Maríu Björnsdóttur við ljóð sem afi hennar orti til  ömmu hennar yfir 60 ára tímabil.

Og þetta fólk tengist Múlakoti heldur betur: amman, Elín Maríusdóttir, var dóttir Vigdísar Eyjólfsdóttur,  bróðurdóttur Guðbjargar, sem var alin upp í Múlakoti hjá Þuríði ömmu sinni. Elín var mörg sumur í sveit í Múlakoti og tengdist staðnum svo sterkum böndum að hún gifti sig í garðinum. Eiginmaðurinn, Ólafur Björn Guðmundsson lyfjafræðingur, var eins og sérvalinn fyrir Múlakot, þar sem hann var ræktunarmaður af guðs náð, já, svo mikill ræktunarmaður, að hann fékk að snyrta trén í garðinum hennar Guðbjargar, en það fékk ekki hver sem var. Ólafur sagði mér reyndar að þá hefði Guðbjörg farið upp í rúm, dregið sængina yfir höfuð og grátið. Þessi fallegu hjón voru ástfangin alla ævi, eins og ljóðin hans Ólafs bera með sér og það var mannbætandi að þekkja þau.

„Hver stund með þér“ er fyrsta sólóplata Önnu Maríu og samhliða henni var gerð heimildamynd með sama nafni. Við hvetjum ykkur til að hlusta og njóta.

Elín Maríusdóttir og Ólafur Björn Guðmundsson

Ný endurminnig á heimasíðuna

Skammdegið hefur lagst að með öllum sínum þunga og á rigningardegi er æði dimmt yfir. Jafnvel í bjartviðri kemst sólin ekki yfir hákoll Jökulsins, en hún sést samt þegar vestur fyrir fjallsranann er komið og sólsetrið getur verið ótrúlega litskrúðugt.

Það gerist heldur ekkert sérstakt á framkvæmdasviðinu hér í Múlakoti, þótt dælan sé látin ganga allan sólarhringinn. Þar á ég við varmadæluna, sem gengur stöðugt á tempruðum hita og þurrkar elsta húsið smám saman.

Við erum helst að vinna við heimasíðuna, og ég er sannfærð um að margir geta lagt okkur lið með því að rifja upp endurminningar tengdar Múlakoti. Við tökum fegins höndum á móti texta og/ eða myndum.

Daði Sigurðsson fyrrum bóndi á Barkarstöðum sendi okkur línu. Sem góður nágranni á hann margar minningar tengdar íbúum Múlakoti  og hann rifjaði upp minningar tengdar Túbal Magnússyni, en þeim fækkar stöðugt,sem kynntust honum í lifanda lífi.

Ýmsir gestir sem koma í Múlakot í fyrsta skiptið spyrja um nafnið Túbal, enda eru þeir varla margir sem bera nafnið. Við skyndileit í Íslendingabók fannst enginn.

Túbal Magnússon, eiginmaður Guðbjargar bar þetta óvenjulega nafn og börn hans tóku það upp sem ættarnafn, eða fjölskyldunafn, eins og algengt var á fyrri hluta 20. aldar og kölluðu sig Túbals, en Reynir, sonur Ólafs, var líklega sá síðasti sem notaði fjölskyldunafnið stöku sinnum.

Á bak við nafnið er dálítil saga. Túbal, sem hét fullu nafni Túbal Karl, var fæddur 31.12.1867 á Stóru-Vatnsleysu í Gullbringusýslu. Foreldrar hans voru skráð í dvöl á Stóru-Vatnsleysu, þau Valgerður Tómasdóttir og Magnús Eyjólfsson, ættaður úr Fljótshlíð. Þau voru ógift.

Magnús hafði áður eignast son sem fékk nafnið Túbal Kain, en drengurinn dó kornungur. Nú myndu einhverjir sperra eyrun því Kains nafnið tengja menn helst við Kain, son Adams og Evu, sem var fyrsti bróðurmorðingi sköpunarsögunnar. Ættleggur Kains er rakinn í fyrstu Mósebók og þar er nefndur afkomandi í sjötta lið Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Magnús Eyjólfsson  var einn helsti gullsmiður Suðurnesja og hefur e.t.v. viljað gefa syninum heiti málmsmiðs – hins mikla málmsmiðs.

Áður tíðkaðist að börn sem foreldrar gátu ekki séð fyrir voru send á sveit föður. Alla vega var litli drengurinn með mikla nafnið, Túbal Karl Magnússon, skráður í prestþjónustubók Breiðabólstaðar árið 1868 sem sveitarbarn á Kollabæ. Valgerður móðir hans er sömuleiðis skráð í Kollabæ, en fluttist síðan aftur að Stóru-Vatnsleysu .

Þorleifur, faðir Guðbjargar, var föðurbróðir Túbals, sem varð vinnumaður í Múlakoti og ráðsmaður Þuríðar, móður Guðbjargar, þegar Þorleifur féll frá. Guðbjörg og Túbal tóku við búinu 1897. Túbal andaðist 9. maí 1946.

Greinina má nálgast hér á heimasíðunni undir “Minningar frá Múlakoti” hnappnum.

Góð kveðja frá Múlakoti

Lægðin stóra – veturnáttalægðin

Mér brá þegar ég leit út um eldhúsgluggann í morgun og þó brá mér jafnvel meira þegar við fórum að skoða veðurstöðina, en það er athöfn sem jafnast á við að bursta tennurnar á morgnanna. Klettaveggurinn fyrir ofan hlaðið var svellaður eins og á janúarmorgni. Ef ekki hefði verið græn grasflöt og allaufgað Gullregn  við hliðinni á grenitrénu  hefði ég kokgleypt við tímasetningunni janúar. Veðurstöðin staðfesti illan grun, lágmarkshiti næturinnar var ekki hiti heldur frost, já 8 stiga frost. Ónotin voru ekki minni þegar leitað var á náðir Eyjafjallajökuls, hann faldi sig á bak við illyrmislegan skýjahnút, sem snjóaði svo úr þegar líða tók á daginn. Nú væri erfitt að finna grænan grasblett til að taka mynd af.

Eins gott að einangrunarmotta verður lögð á loftið yfir gamla bænum til að halda velgjunni frá varmadælunni  inni svo smiðirnir okkar verði ekki krókloppnir þegar þeir mæta aftur.

Mig langar til að kafa dálítið ofan í orðið veturnætur.  Eins og oft áður má finna skýringu hjá Árna Björnssyni í Sögu daganna. Hann vitnar í tímatalið – gamla og það nýja sem líka var kallað nýji stíll og er frá því um 1700. Við vitum  öll að sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi og fyrsti vetrardagur alltaf  á laugardegi og vikurnar eru 52. Jafn margar vikur eiga að vera í sumri og vetri, þannig að fyrsti vetrardagur ætti eiginlega að vera á fimmtudegi svo við erum eiginlega komin með tvo daga aukreitis, þetta eru veturnæturnar.

Veturnætur voru vel nýttar hér áður fyrr, þær voru notaðar til góðra vina funda, veisluhalda af ýmsu tagi, enda var búrið fullt, slátrun búpenings lokið og jafnvel búið að leggja í drykkjarföng.

Þetta ættum við e.t.v. að taka okkur til fyrirmyndar, bjóða heim góðum vinum, gleðjast saman yfir góðu, liðnu sumri. Við hér í Rangárþingi eystra megum þó gæta okkar að ekki fari eins og þegar Gunnari og Hallgerði var boðið í veturnótta-gilli að Bergþórshvoli og eiginkonunum lenti illilega saman.

Mál er að ljúki.

Góð kveðja frá Múlakoti

Eyjafjallajökull falinn bak við illyrmislegan skýjahnút

Nýtt efni á heimasíðunni

Við sem erum í stjórn Vinafélags Múlakots fáum stundum að heyra sögur frá Múlakoti, sögur gamalla gesta, vina, nágranna eða ættingja og höfum velt vöngum yfir hvort ekki væri rétt að deila sögunum með öðrum. Þessar vangaveltur komu okkur til að reyna að efna til nýs þáttar og vonumst við til að þetta verði hvati til að við fáum enn fleiri sögur.

Nú er fyrsta sagan komin inn á heimasíðuna. Í fyrsta dálknum sem ber nafnið Gamli bærinn, undir myndinni af húsinu, er nýi titilinn Minningar frá Múlakoti. Fyrsta minningin er frá Margréti Jónu Ísleifsdóttur og ber nafnið Orð Guðbjargar í Múlakoti voru lög.

Við vonumst til að fá góð viðbrögð frá lesendum en greinarnar munu birtast með dálitlu millibili.

Við hvetjum alla sem eiga góðar minningar frá Múlakoti að senda þær til okkar.

Góð kveðja frá Múlakoti

Varmadæla komin í baðstofuna

Nú er búið að leika dálítið á veðurguðina inni í elsta húsinu í Múlakoti. Í vikunni var sett upp varmadæla í baðstofunni til að þurrka húsið og halda því hlýju. Ytri dælan var sett utan á endurgerðu bygginguna, sem steypt var bak við húsið í stað þeirrar sem var að hruni komin, og þjónar líka sem stoðveggur og hitablásarinn sjálfur fór í eitt horn baðstofunnar. Hann sér alveg um að halda hita á húsinu frá 1897. Og það merkilega er að þessi apparöt eru ótrúlega hljóðlát, þau ættu því ekki að halda vöku fyrir nokkrum manni.

Ljósakvöld í Múlakoti 2019

Ljósakvöldið okkar allra verður haldið laugardagskvöldið 7. september, sem er fyrsta laugardagskvöld í mánuðinum en það er fast viðmið. Dagskráin hefst kl.19.30, heldur fyrr en hingað til, þar sem  það dimmir fljótt þegar komið er fram í september. Ræðumaður kvöldsins er þekktur einstaklingur úr héraði – Ingibjörg Pálmadóttir fyrrum ráðherra – Grétar Geirsson leikur á harmonikku og kaffi og ástarpungar verða á boðstólum.

Aðgangseyrir er kr. 1.000.- sem rennur óskiptur til uppbyggingar staðarins, ókeypis fyrir börn yngri en 12 ára.

Svo bíðum við bara eftir að fallegu húsgögnin úr reynivið úr Múlakoti fyllist af glöðum gestum. Við höfum bætt við borðum og bekkjum frá því í fyrra. Góðar kveðjur úr Múlakoti

Kynningarbæklingur

Nýr kynningarbæklingur hefur litið dagsins ljós og er hann hópvinna stjórnar Vinafélagsins, Svartlistar á Hellu, prentsmiðjunnar Litrófs í Reykjavík og Vinafélags Múlakots.

Bæklinginn verður hægt að nálgast á ýmsum stöðum í sveitarfélaginu, svo sem skrifstofu sveitarfélagsins og sundlauginni Hvolsvelli.

Bæklinginn má einnig skoða hér.

Gamalt og nýtt

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti Pósturinn minn um gamalt og nýtt þar sem ég sagði frá aðalfundinum og þó fyrst og fremst frásögn Andra forstöðumanns Skógasafns vakti viðbrögð formanns Danmerkurdeildarinnar, hennar Vibeke Nörgård-Nielsen. Hún sendi mér og öllum vinum Múlakots þennan fróðlega pistil um Múlakot og Skóga. Svo virðist sem tvennum sögum fari af eiganda herrafatanna, skráningin hefur e.t.v. eitthvað brenglast. Í okkar samhengi var verið að ræða ullarvinnsluna og vefnaðinn í Múlakoti og hvílíkur listavefari Guðbjörg var, efnið í fötunum var bæði fallegt, slitsterkt og nær vatnshelt.
Góð kveðja frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti Undskyld mig, at jeg stadig må skrive på dansk – håber det går. Det var som altid spændende at læse nyt fra Múlakot. Tak for de mange gode oplysninger og billeder. Ved læsningen om Gudbjörg, kom jeg til at tænke på, at da jeg lavede en udstilling i Flensborg i 2010 om bl.a. Johannes Larsen, havde jeg en glasmontre med udstillede billeder fra Skogar. Fra min gode veninde Eva Ragnarsdóttir, der nu er 97 år, havde jeg fået billeder af hendes far Ragnar Ásgeirsson iklædt det tøj Gudbjörg havde vævet til ham. Tøjet havde hun foræret til museet i Skogar, hvor Thórdur viste mig det. Jeg sender her billeder med montren fra udstillingen. Jeg glæder mig til at besøge Múlakot igen i august, når min mand og jeg som trækfuglene kommer til Island igen – lidt sent i år.
Med de bedste hilsener.
Góð kveðja Vibeke i Danmark