Fréttir

Sumarið er komið

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Ég hef margoft ætlað að senda línu, en mér hefur fundist ég vera svo neikvæð, ekkert að segja frá annað en næturfrost og nær óyfirstíganlegt rusl eftir veturinn í báðum görðunum í Múlakoti, Guðbjargargarði og Sigríðargarði, en nú er sumarið komið í sálinni í mér. – Í gær  komu gestir – fyrstu gestir ársins, já, ég hef ekki orðið vör við að neinn hafi svo mikið sem kíkt á garðinn. Og það  er von að ég sé upplyft, því það má segja að þetta hafi verið andlegir gestir, eldri borgarar í Áskirkju og Laugarneskirkju.

Fyrst var hringt í byrjun vikunnar og spurt  hvort ekki yrði tekið á móti, jú, ég hélt nú það, hvað verðið þið mörg? Ja, svona 40. Ég kyngdi og sagði, “við leysum það.” Hugsaði að vonandi gæti ég fengið aðstoð, sem ég og fékk. Hún Hrefna Jónsdóttir, úr stjórn vinafélagsins, kom alla leið úr Garðabænum og var til ómetanlegrar aðstoðar.

Á annarri myndinni sést hvernig hópurinn streymdi að, ekki bara þessir 40 heldur voru þau 54 þegar upp var staðið.

Á hinni myndinni eru þrjár konur; Jóhanna María, djákni í Áskirkju og skipuleggjandi ferðarinnar, Sigríður móðir hennar og Hrefna okkar Jónsdóttir. Sigríður og Hrefna sáust þarna eftir 60 ár , alveg alsælar yfir þessari tilviljun. Í baksýn myndarinnar sést að garðhúsgögnin komu sér heldur betur vel, því nesti var drukkið úti í garði – í þurrviðri, en það kom skúr á undan og eftir.

Í fyrra kom aðeins einn hópur – en ekki má gleyma afmælishátíðinni hátt í 200 manns. Akkúrat þá giltu ekki strangar Covid-reglur, en allir pössuðu sig vel.

Í morgun fékk ég aftur fyrirspurn vegna heimsóknar – guð láti gott á vita

Góð kveðja frá Múlakoti

Vorboðinn ljúfi

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti.

Við hjónin hrukkum upp í morgun þegar vekjaraklukkan glumdi. Þá sjaldan sem við þurfum að nota vekjaraklukku er hún geymd á náttborði húsbóndans, en í þetta sinn kom hljóðið úr annarri átt, eða ofan af þaki og það var margradda. Stundum hef ég formælt vekjaraklukkunni en núna hnippti ég í eiginmanninn – heyrirðu þetta, tjaldurinn er mættur á morgunvaktina.  Já, og þetta var ekki neinn hversdags-tjaldur, þetta var SOKKAPARIÐ okkar. Þið sem hafið verið í Vinafélaginu lengi vitið allt um Sokkaparið, en þeir sem gengu í félagið eftir varptíð í fyrra þurfa að fá formlega kynningu. Það eru líklega 4 ár síðan við tókum eftir óvenju skrautlegum tjaldi, ekki bara þessum venjulega, með langt, rautt nef, með svartan höfuðhjálm og frakka en hvítan kvið og í rauðum „vaðstígvélum“. Ó nei, þarna var meira skraut, hvít legghlíf á hvorum fæti. Þetta hlaut að vera tildursdama, fröken SOKKA , ekki Sokki, kvenkyn, ekki karlkyn.

Hvað sem kyngreiningu líður þá var næsta sumar, sumarið 2019, augljóst að komið var Sokkapar, samanber meðfylgjandi mynd og í fyrra var greiniegt að foreldrarnir sinntu barnauppeldi af kostgæfni eins og sjá má ef FRÉTT frá Múlakoti frá 10.6. 2020 er skoðuð.

Við höfum verið að velta fyrir okkur aldri og lífslíkum Sokku okkar (Sokka)og fundið að tjaldar verða kynþroska 3-5 ára og geta lifað a.m.k. 30 ár. Við höfum því vekjaraklukku næstu ár ef allt fer vel.

Ef svo fer sem horfir verða framkvæmdir sumarsins minni umfangs en síðasta sumar. Fjármunir skerðast verulega, sem rekja má til Covid. Sveitarfélögin í Rangárþingi hafa fundið sárt fyrir samdrætti og engar úthlutanir verða úr Styrktarsjóði héraðsnefndar Rangárþings sem hefur veitt okkur góðan stuðning undanfarin ár. Af sömu ástæðum hafa fleiri sótt um stuðning Minjanefndar en áður og því  þurfti að skera niður stóra styrki. Sjálfseignarstofnunin hlaut þó 3milljóna styrk sem við erum mjög þakklát fyrir, getum minnkað yfirdráttinn og varið einhverju til framkvæmda, þótt ekki verði það jafn mikið og síðasta ár.

Því vil ég skora á okkur öll í Vinafélaginu – við erum sjálfsagt öll í einhverju félagi, jafnvel mörgum. Þar er gjarnar farið í dagsferðir til að hrista hópinn saman. Er ekki alveg tilvalið að koma skoðunarferð í Múlakot á dagskrá- gróður – menning – málverk – landslag – hvað viljið þið meira – aðgangur aðeins kr. 1.000.- á mann, sem rennur óskiptur til framkvæmda.

Góð kveðja frá Múlakoti

Minningar Eggerts Pálssonar frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Er ekki tilvalið að létta sér lund með því að lesa minningar Eggerts  Pálssonar tengdar Múlakoti sem hann Bjarni Benedikt skrásetti? Þær eiga svo vel heima í minningasafninu.  

 Nú fer að ganga verulega á minningasjóðinn okkar, en ég er sannfærð um að það eru margir sem geta deilt með okkur vinum Múlakots gömlum minningum; svo margir af gestum í garðinum hafa sagt: já, ég kom í skólaferðalagi í Múlakot… eða eitthvað á þeim nótunum, ein lítil saga verður þegin með þökkum. Nú er líka næðið framundan, búið að blása af fermingum og fjölskyduboðum sem venjulega setja svip á páskavikuna.

Ef svo fer sem horfir núna eftir nóttina geta menn jafnvel snjóað inni. Hér hefur kingt niður snjó, meira að segja dregið í skafla við Guðbjargargarðinn, svo ófært er fyrir sparibílinn á heimilinu. Við gripum til flóttaleiðarinnar áðan til að komast í póstkassann niðri við þjóðveg. Eins gott að hann var tæmdur því hann var nær fullur af snjó og Bændablaðið orðið rennandi vott en sé varlega farið má samt fletta því.

Meðfylgjandi mynd er frá janúar 2019

Góð keðja frá Múlakoti

Fuglar komnir í bergið

Nú langar mig til að segja VORIÐ er komið, blankalogn og sólin skín sem aldrei fyrr, en ég veit svo sem að febrúar er ekki liðinn hvað þá meira.

En ég get þó fullyrt að fyrstu vorboðarnir eru komnir, já það er meira að segja rúm vika frá því að ég sá fyrsta vorboðann minn. Já, fuglinn er kominn í bergið. Fyrst kom einn og virtist ósköp einmanna og lúinn þar sem hann húkti á vinsælasta hreiðurstæðinu í berginu. En strax morguninn eftir hafði hann fengið félagsskap í hreiðrið og nú iðar allt af fjöri og fluglistir iðkaðar, þótt varla sé hægt að tala um fuglasöng þar sem ú-ið er.

Ég hef verið að svipast eftir Múkkanum síðan á Bóndadaginn, sem bar að þessu sinni upp á 22. janúar, en ferðaáætlunin hans hefur víst raskast eins og hjá svo mörgum þetta árið. Hann hefur e.t.v. frétt að þorrablótið i Fljótshlíðinni var blásið af og talið þess vegna  að honum lægi ekkert á. Annars hefur hegðun Múkkans, ég ætti e.t.v. frekar að nota hitt nafnið, tala um Fýlinn, verið óvenjuleg síðasta árið. Fullorðni fuglinn hefur gjarnan farið í sumarfrí um verslunarmannahelgina en komið svo aftur viku síðar til að kenna unganum flugið, en námskeið í fluglistinni var ekki haldið að þessu sinni, varla að fullorðinn fugl sæist, sama hvað ungarnir  grétu af hungri. Múkki eða fýll, hann er velkominn og í mínum huga eru bæði nöfnin jafngóð, þarf ekkert á latínunni að halda, Fulmarus glacialis má víst útleggja sem daunilla máfinn, sem hefst við á ísaslóðum.

Góð kveðja frá Múlakoti

Gengnar slóðir

Gengnar slóðir

Tuttugasta öldin var öld kvenfélaganna. Fjölmörg kvenfélög voru stofnuð um land allt, það liggur við að fullyrða megi að stofnuð hafi verið kvenfélög í öllum hreppum landsins. Félögin hafa síðan myndað stærri starfseiningar, svo sem Samband sunnlenskra kvenna (SSK) og Kvenfélagasamband Íslands.

Samband sunnlenskra kvenna var stofnað árið 1928, stofnfélögin voru tæplega 10 en eru nú eru í sambandinu 25 félög . Þau eru á ýmsum aldri, elst er kvenfélag Eyrarbakka, stofnað árið 1888, en yngst er kvenfélag Þorlákshafnar, stofnað árið 1964. Kvenfélag Fljótshlíðar, sem síðar fékk heitið Kvenfélagið Hallgerður, var stofnað árið 1923 af 32 konum, en nú eru 20 konur í félaginu, enda hefur býlum í Fljótshlíð fækkað verulega á þeim tæpu 100 árum, sem liðin eru frá stofnun þess.

Guðbjörg Þorleifsdóttir var ein stofnenda Kvenfélags Fljótshlíðar og var gerð að heiðursfélaga þess. Húsmæður í Múlakoti hafa löngum verið í félaginu og án efa gekk Lára Eyjólfsdóttir í það þegar þau Ólafur Túbals giftu sig árið 1924.

Auðséð er við lestur gestabóka Múlakots að hin ýmsu kvenfélög hafa iðulega heimsótt Múlakot og skemmtilegt er að vita að síðasti hópurinn, sem skrifaði sig í gestabók hótelsins var kvenfélag úr Reykjavík.

SSK beitti sér fyrir að veglegur minnisvarði  um Guðbjörgu var reistur í Múlakotsgarðinum í tilefni af 100 ára afmæli hennar ; á veglegan blágrýtisdrang úr stuðlabergi hlíðarinnar fyrir ofan Eyvindarmúla var komið fyrir lágmynd Einars Jónssonar af Guðbjörgu, en Einar var heimilisvinur í Múlakoti.

Þegar SSK varð fimmtugt gaf félagið út veglega bók, Gengnar slóðir, með sögu félagsins og sögu einstakra félaga. Þar var Guðbjargar vel minnst sem  minnisverðrar konu.

Sumarið 2020 var 150 ára afmælis Guðbjargar minnst að viðstöddum 200 gestum. Þar flutti Elinborg Sigurðardóttir, formaður SSK stutt ávarp og færði staðnum rausnarlega peningagjöf.

Á myndinni eru: Sigríður Hjartar, Múlakoti, félagi í kvenfélögunum Hallgerði og Einingu, Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands, Elinborg Sigurðardóttir formaður SSK, Guðbjörg Þorleifsdóttir heiðursfélagi í kvenfélaginu Hallgerði, Þórdís Kolbrún Reykfjörð ráðherra ferðamála og Sólveig Ólafsdóttir í varastjórn Kvenfélagasambandsins og formaður Kvenfélags Grindavíkur

Jólakveðja frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Ég sendi okkar bestu jólakveðjur með mynd af sólsetri sem var tekin daginn fyrir vetrarsólhvörf.

Dagurinn er ekki langur um þessar mundir, sólin kom upp 12:45 yfir Seljalandsmúla en settist í hvarfi við Dímon klukkan liðlega 3. Þó er daginn tekið að lengja, hann var 13 sekúndum lengri í dag en í gær. Næturhimininn skartaði sínu fegursta síðastliðna nótt og norðurljósin dönsuðu fyrir okkur í fyrsta sinn í vetur.

Við sendum öllum vinum Múlakots bestu óskir um gleðileg jól.

Vonandi verður árið 2021 landsmönnum betra en árið sem er að líða.

Góð kveðja frá Múlakoti

Málningarvinnu lokið

Nú er stórum áfanga náð þar sem málningarvinnu í gamla bænum er lokið. Þetta var mun meiri vinna en ég hafði gert mér í hugarlund því málararnir gengu hreint til verks og skröpuðu burt alla gömlu málninguna, heil 20 kg af skrapi og svo voru farnar tvær umferðir með linoleum málningu.

Myndirnar hér að ofan eru úr litlu stofunni. Ákveðið var að hreinsa aðeins gömlu málninguna af skrautlistanum en reyna ekki að mála hann upp. Sama gildir um fallegu, óðruðu hurðina í stofunni, ekkert var hreyft við henni.

Myndin hér að ofan er úr baðstofu, nú er búið að mála hurðirnar líka.

Myndin hér að ofan er úr ganginum og myndin hér fyrir neðan úr hjónakamesinu. Þetta eru fallegir, en dökkir litir, en alls staðar var stuðst við upprunalegu litina.

Ég vona að Vinir Múlakots gleðjist með okkur.

Góð kveðja frá Múlakoti

Málverkin á stofuveggnum

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Vinir Múlakots hafa að undanförnu fengið fréttir af framvindu málningarvinnu í gamla bænum í Múlakoti. Nú er verið að leggja lokahönd á stofuna.

Það rifjaðist upp fyrir okkur hjónunum að á gamla veggnum í stofunni, þessum sem gerður er úr misbreiðu timburborðunum, voru, þegar við keyptum jörðina, leifar af bláleitum pappa. Reynir, sonur þeirra Láru og Ólafs, sagði okkur að þarna hefðu verið málverk máluð á vegginn, sem hann hefði fengið Jónda, Jón Kristinsson, listamann og bónda í Lambey í Fljótshlíð, til að skera niður. Reynir gaf lítið út á hvert málverkin hefðu farið en annað hefði víst farið á Skóga og hitt líklega á Hellu.

Okkur datt í hug að gaman væri að reyna að hafa upp á málverkunum og reyna láta gera eftirmyndir til að setja upp í stofunni. Vandinn var hversu langt er liðið síðan málverkin voru fjarlægð og farið að fækka þeim sem mundu eftir málverkunum og hvað myndirnar sýndu.

Andri, forstöðumaður Skógasafns, sem er í stjórn Sjálfseignastofnunarinnar, brást vel við og hóf leit. Að vísu héldum við fyrst að á Skógamyndinni væri Bleiksárgljúfur, sem ruglaði leitina, en Andri gafst ekki upp og hann fann málverkið upprúllað, myndefnið er Eyjafjallajökull séður frá Múlakoti, og stærðin ekkert smáræði, 2,1 x 1,6 metrar.

Hin myndin hlaut að vera miklu minni og á henni sást einhver foss. Ég hafði samband við einu manneskjuna sem ég vissi af og hafði tengsl við Múlakot og Hellu, Sjöfn Árnadóttur, sem var hér sumarstúlka tvö sumur á sjötta áratugnum, en Sjöfn skrifaði mjög skemmtilega grein um þann tíma. Sú grein hefur þegar birst í greinaflokknum Minningar frá Múlakoti. Og viti menn, þau hjónin, Filippus og Sjöfn keyptu minni myndina, sem Selma dóttir þeirra, fékk síðar í fertugsafmælisgjöf. Og viti menn, þar er myndefnið fossinn Sídjarfur í Bleiksárgljúfri!

Já, gaman væri að láta gera eftirmyndir af þessum verkum og koma þeim upp í stofunni í elsta húsinu, litlu stofunni.

Góð kveðja frá Múlakoti

Litatónar haustsins

Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti

Litatónar haustsins hafa verið stórkostlegir hér í Múlakoti. Gamla málarastofan hans Ólafs Túbals virðist hjúfra sig ofan í trjágróðurinn og liturinn á þakinu virðist hafa verið valinn af litabretti listamanns til að falla inn í haustlitina.

Litadýrðin innan húss verður ekki minni. Baðstofan er komin í sína endanlegu liti og hjónakamersið búið að  fá tvær umferðir eins og til stóð.

Enn er verið að velta vöngum yfir rétta tóninum á bláu málningunni í stofunni, á veggurinn með glugganum sáluga að vera dálítið grænleitari en sýnist á myndinni, svona í tengingu við ganginn?

Góð kveðja frá Múlakoti

“skúra, skrúbba og bóna”

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Var það ekki Olga Guðrún Árnadóttir sem söng fyrir áratugum um Ryksuguna á fullu, sem át alla drullu? Þennan brag hafa málararnir okkar sungið af miklum krafti undanfarna viku, að vísu með breyttum breytanda, í stað skúra, skrúbba, bóna segja þeir: „Skafa, nudda, skrapa“ og árangurinn lætur ekki á sér standa.

Veggurinn í gömlu stofunni, sem var svo hræðilega ljótur og furðulega grá-græn-brúnn (ef sá litur er til) birtist mér alveg í nýju ljósi þegar búið var að fjarlægja “litinn“ sem reyndist aðeins eitt lag af málningu eða einhverns konar fernis en hinir veggirnir eru panelklæddir og með mörgum málningarumferðum. Timbrið í þessum vegg er mjög gamallegt, láréttir listar skipta honum í jafnhá bil en timbrið milli listanna er mjög misbreitt, allt frá ca 20 niður í 2 cm á breidd, alveg eins og veggurinn væri samansettur úr afgöngum.

Við hjónin erum sjálfsagt ekki ein um að hafa flett ýmsum bókum að undanförnu og gjarnan hafa orðið fyrir valinu bækur um gamlar byggingar á Íslandi. Nú erum við að blaða í Kirkjum Íslands. Mig rak í rogastans þegar ég sá myndir innan úr Þingvallakirkju. Á mynd innan úr kirkjunni frá því fyrir aldamótin 1900 sá ég ekki betur en kominn væri veggurinn „okkar“. Í texta  stendur: Austurgafli er deilt í átta reiti á langveginn en í þrjá reiti frá gólfi til hvolfstóls….  Klæðningsborðin eru misbreið, allt að 20 cm þar sem þau eru breiðust og standast hvergi á milli reita. Svei mér þá,þarna er komin lýsingin á veggnum „okkar“.

Þessi stofuveggur hafði verið klæddur með þykkum, ljósbláum eða blámáluðum „gólfdúk“ einhvern tímann og á hann hafði Ólafur Túbals málað stærðar mynd og aðra minni á veggbút við hlið langveggjarins, búið var að fjarlægja báðar myndirnar þegar Múlakot kom í okkar eigu fyrir 20 árum. Okkur var sagt að stóra myndin hafi farið á Skóga, en sú minni í einkaeiga, líklega á Hellu.

Nú muna sjálfsagt margir eftir þessum myndum, en gaman væri að fá eitthvað að heyra um þær.

Góð kveðja frá Múlakoti