Fréttir

Afhending gjafar til Skógasafns

Síðastliðinn föstudag hittist lítill hópur í Skógasafni. Tilefnið var afhending gjafar til Skógasafns.

Gjöfin var garðbekkur og ekkert venjulegur bekkur.

Efniviðurinn var reyniviður, vaxinn í Múlakoti, önnur kynslóð frá lítilli reyniplöntu sem Eyjólfur Þorleifsson, sonur hjónanna í Múlakoti, Þuríðar og Þorleifs, sótti í Nauthúsagil árið 1897 og gaf Guðbjörgu systur sinni.

Sá sem felldi tréð var Björgvin Eggertsson, kennari við Garðyrkjuskólann á Reykjum og meistari  í trjáfellingum.

Hönnuður og smiður bekkjarins er Skúli Jónsson fv. bóndi í Þykkvabæ í Landbroti.

Gefandi var Skúli Jónsson og stjórn Sjálfseignarstofnunarinnar í Múlakoti; Stefán Guðbergsson bóndi í Múlakoti formaður, og stjórnarmennirnir Anton Kári Halldórsson oddviti sveitarstjórnar í Rangárþingi eystra og Andri Guðmundsson forstöðumaður Skógasafns

Viðtakandi var Andri Guðmundsson forstöðumaður Skógasafns

Vottur Héðinn Bjarni Antonsson fulltrúi nýjustu kynslóðar safngesta

Já, þetta gerist varla sunnlenskara

Góð kveðja frá Múlakoti

Sterk bönd við æskuslóðir

Mér finnst haustið hafa komið eins og hendi væri veifað. Skyndilega hefur næturhitinn lækkað ískyggilega. Þótt hann hafi ekki enn farið niður fyrir frostmark þá hefur hann nálgast núllið ískyggilega.

Þetta finna hinir vængjuðu vinir okkar á sér, tjaldurinn hefur yfirgefið okkur fyrir allnokkru síðan og fýlsungarnir hafa hert upp hugann og fleygt sér fram af hreiðurbrúninni í ómeðvitaðri þrá eftir hafinu með öllu sínu æti. Þrestirnir hendast á milli greina reynitrjánna til að ná í sem mest af stóru berjunum svo þeir hafi sem mest af orku í langflugið mikla, þótt drjúgur hópur þrasta hafi hér vetursetu.

Gaman væri að vita hvort það séu ekki sömu fuglarnir sem koma hingað ár eftir ár, eins og frú Sokka Tjaldsdóttir sem virðist hafa bundist uppeldisstöðvunum sterkum böndum, en það er spurning sem erfitt er að fá svar við.

Við sjáum þó að Vinir Múlakots hafa margir bundist æskuslóðunum sterkum böndum, um það vitna endurminningarnar sem þeir hafa leyft okkur, sem ekki erum alin upp í Fljótshlíðinni, að njóta með sér. Eins hafa ýmsir gestir deilt með okkur sínum minningum. Þessi skrif hafa fengið mjög góðar undirtektir og margir látið í ljósi von um sem flestar greinar.

Halldóra Guðmundsdóttir er ein okkar ljúfu farfugla, fædd og uppalin í Fljótshlíðinni. Hún hefur tengst hlíðinni fögru sterkum böndum eins og við sjáum í meðfylgjandi viðtali.

Bestu þakkir og kveðjur frá Múlakoti

Ljósadýrð í síðsumars húmi

Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti

Undanfarin 4 ár hefur Ljósakvöld verið haldið hátíðlegt í Múlakoti 1. laugardag í september til að minnast þess hve rík er í huga margra ljósadýrðin í Múlakotsgarðinum þegar hann var upplýstur í síðsumars-húminu.

Bændur í Múlakoti voru stórhuga og virkjuðu lækinn sem féll niður af hömrunum fyrir austan bæinn. Það var árið 1928 sem bræðurnir Ormson settu upp rafstöð sem dugði bæjunum til ljósa og eldunar væri sparlega á haldið. Þeir voru langt á undan sinni samtíð, „Ríkisrafmagnið“ kom áratugum síðar í Fljótshlíðina og því er ekki að undra að gestum og grönnum hafi þótt ævintýri líkast að sjá ljósadýrðina í Múlakotsgarðinum langt að.

Hvenær fyrst var kveikt á garðljósum er ekki vitað  en Ólafur Túbals fór tvisvar til Danmerkur, í síðara skiptið 1934. Ekki er ósennilegt að hann hafi séð ljósadýrðina í Tivolí og það kveikt hjá honum hugmyndina um upplýstan Múlakotsgarð.

Þennan laugardag höfum við hér í Múlakoti síðastliðin 4 ár setið við og skrúfað mislitar perur í garðljósin og síðan klifrað upp í stiga til að hengja upp skrautljósin en í dag höfum við haft annað fyrir stafni, enda Ljósakvöldi aflýst vegna Corona-veirunnar.

Við höfum verið að skrúfa niður asparplöntur á trjáræktarsvæðinu okkar niðri á aur – eða aurum eins og margir segja. Þarna erum við með 64 hektara svæði fyrir asparrækt, sem nær fullplantað er í en við höfum orðið fyrir ýmsum afföllum með gróðursetninguna og þurfum því að leggja áherslu á íbætur, erfitt og seinlegt verk, enda ekki hægt að koma vélum við nema á stöku stað.

Þess vegna finnst okkur vel við hæfi að Vinir Múlakots fái andlegan glaðning þótt við getum ekki haldið Ljósakvöld hátíðlegt saman í ár.

Enn er brunnur afmælishátíðarinnar ekki þurrausinn. Síðasti ræðumaðurinn, og sá sem bræddi hjörtu allra afmælisgesta, var jafnframt elsti ræðumaðurinn, séra Sváfnir Sveinbjarnarson sem varð 92 ára þennan dag.

Kæri Vinur Múlakots, njóttu ávarps Sváfnis.

Góð kveðja frá Múlakoti

Minningar Guðjóns Friðrikssonar um sumarheimsóknir í Múlakot.

Sumri hallar, það sést á mörgu í náttúrunni, ekki síst á fuglunum. Gráthljóð berast frá klettaveggnum, það eru fýlsungarnir, sem gráta fjarveru foreldra sinna. Fullorðni fýllinn fer í sumarfrí um verslunarmannahelgina og svei mér ef hann fór ekki viku fyrr þetta sumarið. Mér finnst alveg tímabært að hann fari að vitja um ungviðið. Venjulega kemur einn og einn fullorðinn fugl og flýgur fyrir framan hreiðrin og fer svo burt. Það er eins og hann vilji  segja: sjáið bara, svona eigið þið að gera, þetta er enginn vandi. En ungaræflarnir eru kjarklausir og  hafa ekki soltið nógu lengi.

Við sjáum líka á ungum Sokkaparsins okkar að það er orðið áliðið sumars, ungarnir eru löngu orðnir fleygir og í raun sjálfbjarga með fæðu, enda orðnir jafnstórir foreldrunum. Þeir koma þó ennþá og sníkja sér eitthvað gott í gogginn, já, táningar eru löngum sjálfum sér líkir, en það er gaman að fylgjast  með fuglum himinsins, þessum vængjuðu sumargestum.Þessu rabbi mínu um vængjaða sumargesti fylgir skemmtileg frásögn af öðrum sumargestum, gestum sem  líka hafa flogið sinn veg. Guðjón Friðriksson var tvisvar sumargestur með foreldrum sínum í ágúst  fyrir meira en hálfri öld síðan og skrifaði meira að segja sjálfur í gestabók staðarins.

Njótið lestrarins

Góð kveðja frá Múlakoti

Ljósakvöldi 2020 aflýst

Hér með tilkynnist að Ljósakvöldi, sem hingað til hefur verið haldið fyrsta laugardagskvöld í september, er aflýst í ár.

Fram til þessa hefur ljósakvöld verið fastur haustatburður og við höfum ekki látið smávegis vætu á okkur fá. Í fyrra flúðum við inn í matsalinn vegna rigningar en staðan í heilbrigðismálum er slík að við viljum ekki taka neina áhættu. Við sjáum ekki fram á að geta haldið 2 m fjarlægð milli samkomugesta og aflýsum því Ljósakvöldi árið 2020

Góð kveðja frá Múlakoti

Þakkir vegna afmælishátíðar

Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti
Oft er þörf á að gera hreint fyrir sínum dyrum og ef þess þarf ekki eftir stórhátíð þá veit ég ekki hvenær.
Svona veisla verður ekki til nema fyrir samstarf margra aðila. Við höfðum stóra styrktaraðila, Menningarnefnd Rangárþings eystra, SASS og Sláturfélagið. Öll stjórn Vinafélagsins kom að verkinu, en þar vil ég einkum nefna Björn formann vorn og Hrefnu Jónsdóttur. Veitingarnar voru ekki af verri endanum og margir sáu um að baka. Bara að smyrja flatkökurnar tók 9 vinnustundir og þar var samt keppst við. Drjúgur tími fór í að smala saman húsgögnum, en þeir fallegu bekkir og borð sem venjulega eru í garðinum dugðu hvergi til, enda hver getur séð 200 manns fyrir sætum úti í garði, ég bara spyr?
Svo voru allir þeir sem unnu við framreiðslu veitinga og svo frágang á eftir, að ljósmyndaranum okkar ógleymdum. Myndirnar hans verða á heimasíðunni aðgengilegar öllum.

Okkur – Vinafélaginu – Sjálfseignarstofnuninni – staðnum voru líka færðar góðar gjafir. Þegar hefur verið sagt frá Gullbrúðkaupskveðju Tómasar Guðmundssonar skálds, sem sonur hans og tengdadóttir færðu okkur í handriti skáldsins. Kvæðið hefur aldrei verið birt opinberlega áður og aðeins flutt í Múlakoti.

Elinborg Sigurðardóttir, formaður sambands sunnlenskra kvenna, var svo lítillát að hún greindi ekki sjálf frá því að stjórn SSK gaf kr. 50.000.- til uppbyggingarinnar. Vinir Múlakots, hjón sem búa suður með sjó, vilja ekki láta nafns síns getið, en þau gáfu 25.000.- í sama skyni og Hrefna Jónsdóttir gaf til varðveislu í gamla bænum salúnsofið rúmteppi, sem Soffía Gísladóttir, móðir hennar, óf undir handleiðslu Guðbjargar. Handbragðið ber fagurt vitni bæði nemenda og kennara, en Soffía, sem var frænka Múlakotshjónanna beggja, var alin upp í Múlakoti. Eins kom Hrefna með lítið borð, eða hirslu, sem var eign Fjólu, dóttur Ólafs og Láru, og hún geymdi fjársjóði sína í. Á þessu borði verður ljósrit af ljóði Tómasar varðveitt.
Vinum Múlakots fjölgaði um 20 þennan dag.

Kærar þakkir til allra, gesta og starfsmanna.
Ávörpin verða birt á .heimasíðunni

Menning í Múlakoti

Árið 2016 skrifaði Ásta Friðriksdóttir meistararitgerð við Hugvísindadeild Háskóla Íslands sem ber heitið Menning í Múlakoti. Í ritgerðinni leggur Ásta höfuðáherslu á listamenn sem tengdust Múlakoti á fyrri hluta tuttugustu aldar og birtir myndir af ýmsum listaverkum sem tengjast staðnum. Ásta hefur góðfúslega gefið leyfi á birtingu ritgerðarinnar og má finna hana undir dálknum Listamenn.

Gullbrúðkaupskveðja til frú Guðbjargar og Túbals í Múlakoti 28.júní 1943.

Nú er mikil hátíð – 150 ára afmælishátíð – nýafstaðin og ýmsar fréttir henni tengdar munu berast ykkur á næstunni.

Fjallað var um fyrirhugaða hátíð víða, m.a. í Bændablaðinu og sú frétt hafði heldur betur óvæntar og ómetanlegar afleiðingar. Í okkur Stefán hringdi Guðrún Ásgeirsdóttir, sem sagði þau hjónin hafa undir höndum kvæði sem tengdafaðir hennar, Tómas Guðmundsson, hafði ort sem gullbrúðkaupskveðju til Guðbjargar og Túbals. Til að gera langa sögu stutta þá sendi hún okkur myndir af kvæðinu og þau Guðmundur Tómasson komu síðan degi fyrir hátíðina og afhentu sem gjöf til staðarins eiginhandar-uppskrift Tómasar af því.

Kvæðið var svo flutt á hátíðinni, en það gerði Magnús Haraldsson á Hvolsvelli með  sönnum glæsibrag við einstaklega góðar  undirtektir.

Þess má geta að Tómas og Guðbergur, faðir Stefáns, voru æskuvinir og nágrannar í Grímsnesinu.

Góð kveðja frá Múlakoti

Kvæði Tómasar Guðmundssonar

Vel heppnuð afmælishátíð

Sunnudaginn 26. júlí var haldin afar velheppnuð afmælishátíð í Múlakoti þar sem þess var minnst að 150 ár eru liðin síðan Guðbjörg Þorleifsdóttir fæddist. Um 200 manns lögðu leið sína í Múlakot og flutt voru áhugaverð ávörp og falleg tónlist. Magnús Haraldsson las svo upp áður óbirt ljóð eftir Tómas Guðmundsson með glæsibrag.

Á heimasíðu Björns Bjarnasonar, formanns Vinafélags Gamla bæjarins í Múlakoti, má finna góða lýsingu á því sem fram fór á afmælishátíðinni en umfjöllunina má finna hér.