Málun í Múlakoti

Þessa dagana stendur yfir málun innanhúss í Múlakotsbænum en það er Málingarþjónustan ehf. á Selfossi sem sér um verkið. Eftirfarandi yfirlit er komið frá Steindóri Pálssyni málarameistara

Áður en farið er yfir verkstöðuna kemur hér fyrst að aðferðinni sem við beitum við málun gamalla húsa. Allur panill og allir listar eru unnir þannig að öll laus og flagnandi málning er fjarlægð. Slípað með sandpappír og skafið eftir því sem við á. Allar kverkar og rifur milli panilborða eru hreinsaðar upp með oddmjóum sköfum og slípaðar með sandpappír. Þá eru allir fletir ryksugaðir og einnig ryksugað vel úr öllum rifum og kverkum. Allt skrap og óhreinindi hreinsað upp af gólfum. Áður en málun hefst eru svo allir fletir þvegnir með volgu vatni, en það er endanleg rykhreinsun og þá er komiða að málun

Allir fletir eru málaðir með línolíumálningu, tvær umferðir með 5 – 7 daga millibili því þurktími þess háttar efna er mjög langur. Reynt er að koma málningu eins vel og hægt er í allar rifur. Gluggar í þeim rýmum sem við erum að mála núna eru nýir og lakkaðir með aðeins nútímlegri aðferðum.

Verkstaðan föstudaginn 17. júlí er sem hér segir:

Baðstofa: Þar er búið að slípa og hreinsa bæði loft og veggi. Búið er að mála allt það herbergi, veggir hafa eina umferð en loftið er fullmálað.         

Hjónakames og stofa: þar er málun ekki hafin en slípun langt komin. Það er gaman að segja frá því að þegar slípaður var breiður loftlisti í stofunni þá kom í ljós skrautbekkur, málaður í dökkum lit. Þetta leyndist undir mörgum umferðum af málningu og ljóst má því vera að það er langt um liðið síðan það var gert, en áður höfðum við fundið smá bút af þessum sama skrautbekk efst í litlum skáp sem er í þessu sama herbergi. Vinna við glugga í þessum rýmum eru langt komin, einungis eftir að lakka seinustu umferð. Til stendur svo á mánudag að mála seinni umferð á baðstofuna þannig að hún ætti þá að verða þurr og klár sunnudaginn 26. Einnig  stendur til að lakkmála seinustu umferð á glugga í næstu viku. Í hjónakamesinu erum við búnir að slípa einn vegg að hluta til og mála þar eina umferð á smá flöt þannig að þar er gott að sjá hvernig þetta er unnið.                                                                           

Til gamans er svo hér í lokinn er smá fróðleikur varðandi línolíumálningu og önnur nútímalegri málningarefni. Málningin sem við notum í þessu verki er frá Finnskum framleiðanda sem heitir Tikkurilla og fyrir áhugasama heitir efnið því þjála nafni „Lin pellavaöljymaali“ sem samkvæmt google translate þýðir „linolíu hörfræ olíumálning“. Línolía er olía sem unnin er úr hörfræjum og hefur verið notuð sem bindiefni í málningu um aldir. Línolíumálning var og er mikið notuð af myndlistarfólki og einnig við málun gamalla húsa og er það partur af því að velja hráefni sem notuð voru á þeim tíma er húsin voru byggð. Talið er að olíumálning í einhverri mynd hafi verið notuð frá því á 12. öld. Það bindiefni sem tók við af línolíu heitir alkyd og eftir því sem ég best veit hefur það verið í notkun frá því á 19.öld og er notað í framleiðslu en þann dag í dag, þó svo í litlu mæli sé. Alkyd málning er sú málning sem í almennu tali í dag er nefnd olíumálning og leysist upp í terpentínu eins og línolían.

Í málningarframleiðslu nútímans eru notuð önnur bindiefni, en um og upp úr 1960  kom á markað nýtt bindiefni sem heitir akrýl og er sennilega lang algengasta bindiefnið í málningu í dag, en  með því ágæta efni hefst og plastvæðing heimsins og þá um leið framleiðsla á allskonar plastumbúðum  sem síðar reyndist verða einhver mesta umhverfis vá samtímans.

Dagskrá afmælishátíðar í Múlakoti

Dagskrá afmælishátíðar vegna 150 ára afmælis Guðbjargar Þorleifsdóttur

26. júli 2020 kl. 15

Dagskrá afmælishátíðar vegna 150 ára afmælis Guðbjargar Þorleifsdóttur

26. júlí 2020 kl. 15

  1. Setning samkomu Björn Bjarnason formaður Vinafélags
  2. Ávarp Þórdís Kolbrún Reykfjörð  Gylfadóttir ráðherra ferðamála
  3.  Ávarp   Elinborg Sigurðardóttir formaður Sambands sunnlenskra kvenna
  4.  Jón Kristófer Arnarson verkefnisstjóri LbhÍ flytur kveðju skólans og Garðyrkjufélags Íslands
  5. Ávarp sr. Sváfnir Sveinbjarnarson
  6. Sigríður Hjartar segir frá Gullbrúðkaupskveðju Tómasar Guðmundssonar til Múlakotshjóna
  7. Magnús Haraldsson flytur ljóð Tómasar
  8. Söngur Maríanna Másdóttir

Fjöldasöngur

Kaffiveitingar og húsið opnað

Afmælishátíð í Múlakoti

Sunnudaginn 26. júlí verður blásið til mannfagnaðar í Múlakoti. Tilefnið er að 150 ár eru liðin frá fæðingu Guðbjargar Þorleifsdóttur húsfreyju þar.

Sú var tíðin að nafn hennar var þekkt um allt Ísland því á fyrri hluta síðustu aldar var hún talin mesta ræktunarkona Suðurlands, ef ekki alls landsins.

Foreldrar Guðbjargar, þau Þuríður Jónsdóttir og Þorleifur Eyjólfsson, fluttust að Múlakoti 1869 ásamt tveimur sonum, og þar fæddist Guðbjörg 27. júlí 1870. Guðbjörg og eiginmaður hennar, Túbal Karl Magnússon tóku við búsforráðum 1897 og áttu þar heima til dauðadags, þau eignuðust 4 börn, þrjár dætur og soninn Ólaf, sem tók við búi um 1935 ásamt konu sinni, Láru Eyjólfsdóttur.

Árið 1897 er merkisár í sögu Múlakots fyrir margra hluta sakir. Eini sonurinn fæddist, byggt var nýtt íbúðarhús, en eldra hús hafði eyðilagst í Suðurlandsskjálftanum 1896, og Guðbjörg eignaðist fyrstu trén, örsmáar reyniplöntur úr Nauthúsagili.

Nokkrum árum áður hafði hún fengið um 10 m-2 skika úr grænmetisgarðinum fyrir sunnan húsið undir blómarækt, en aldur garðsins miðaði hún við aldur trjánna.

Svo vel vill til að Guðbjörg skrifaði sjálf grein í Búnaðarritið þar sem hún lýsti ræktunaráhuga sínum frá blautu barnsbeini og sögu garðsins, hvernig hann stækkaði stöðugt. Nú er garðurinn 1000 m-2 en þeirri stærð hafði hann náð árið 1944.

Garðurinn í Múlakoti varð landsfrægur, þangað streymdi að fólk til að skoða garðinn sem átti sér engan  líka. Ræktunarfrömuðir landsins komu gjarnan í Múlakot með erlenda gesti til að sýna þeim og sanna að fjölbreyttur yndisgróður gæti þrifist á Íslandi.

Guðbjörg var svo natin við að koma á legg viðkvæmum jurtum að ef bárust til landsins plöntur sem garðyrkjumenn töldu hæpið að myndu geta þrifist, var ráðið hjá mörgum að biðja Guðbjörgu um að spreyta sig. Ef henni tókst ekki að fá plönturnar til að lifa, tjóaði lítið fyrir aðra að reyna.

Hún var beðin um að veita forstöðu uppeldisstöð trjáplantna fyrir Skógrækt ríkisins. Þessu neitaði Guðbjörg, taldi sig hafa meira en nóg á sinni könnu við heimilisstörfin og að auki væri hún ómenntuð.

Engu að síður ræktaði hún upp mikið af trjáplöntum, bæði birki og reyni, og ýmist gaf eða seldi. Plöntur frá Guðbjörgu voru í flestum görðum á Suðurlandi.

Guðbjörgu var margvíslegur sómi sýndur sem sýnir að störf hennar voru mikils metin. Garðyrkjufélag Íslands gaf henni stórt gróðurhús þegar hún varð sjötug og gerði hana að heiðursfélaga sínum árið 1944 og eins var hún sæmd Fálkaorðunni af sama tilefni.

Samband sunnlenskra kvenna sýndi hug sinn í verki í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá fæðingu hennar og gaf veglegan minnisvarða prýddan lágmynd af henni eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Myndarleg dagskrá var í Ríkisútvarpinu vegna 100 ára afmælisins.

Listmálarar uppgötvuðu líka Múlakot. Fyrstur í langri röð var Ásgrímur Jónsson listmálari sem dvaldi þar fyrst sumarið 1914 og málaði þar og í næsta nágrenni margar perlur í listasögu Íslands. Ólafur lagði líka fyrir sig listmálun og naut góðs af leiðsögn Ásmundar og fleiri listamanna. Múlakot varð vinsæll dvalarstaður um langt skeið hjá listmálurum.

Árið 1928 var byggt við íbúðarhúsið sérstök bygging fyrir veitingareksturinn og 1946 var bætt við gistinguna. Það sýnir glöggt gestaganginn að sumarið sem veitingahúsið var byggt, skrifuðu um 1850 manns nöfn sín í gestabók staðarins.

Til að gera langa sögu stutta þá lést Guðbjörg árið 1958  en Túbal hafði látist 1946. Ólafur sonur þeirra andaðist 1964. Hótelrekstri  í Múlakoti lauk um 1982 og eigendaskipti urðu á jörðinni í lok árs 2000 þegar Stefán Guðbergsson og Sigríður Hjartar eignuðust hana.

Þeim var vandi á höndum, því húsnæðið reyndist óíbúðarhæft og garðurinn  í niðurníðslu eftir áratuga vanhirðu.

Loks fannst lausnin. Eftir heildarfriðun bæjartorfunnar var stofnuð sjálfseignarstofnun um gamla bæinn í Múlakoti. Aðilar eru sveitarfélagið Rangárþing eystra, Skógasafn og eigendur jarðarinnar, sem gáfu stofnuninni gömlu bæjarhúsin og garðinn. Verkefni stofnunarinnar er einkum að annast fjármögnun og endurbyggingu húsakynna. Mikil vinna hefur þegar verið lögð í endurbyggingu íbúðarhússins frá 1897.

Jafnframt var stofnað Vinafélag, sem í eru liðlega 100 aðilar, einstaklingar og fyrirtæki. Það annast einkum félagslegu hliðina, stendur fyrir upplýsingagjöf, heimasíðu og árvissu Ljósakvöldi fyrsta laugardagskvöld í september, þegar garðurinn er upplýstur. Þá er notið veitinga og hlustað á ýmsan fróðleik í kvöldhúminu.

Húsgögnin í garðinum eru smíðuð úr reynivið, sem fallið hefur til í garðinum þegar þurft hefur að grisja eða fella  trén, þau elstu vel yfir 100 ára gömul. Öllum er heimilt heimsækja gamla garðinn í Múlakoti endurgjaldslaust, en hópar geta fengið leiðsögn um húsið gegn vægu gjaldi.

150 ára afmælishátíðin verður haldin sunnudaginn 26. júlí. Samkoman hefst kl. 15, flutt verða stutt   ávörp, söngur og einfaldar kaffiveitingar verða úti í garði. Aðgangur er ókeypis, en allir styrkir eru vel þegnir. Munið að klæða ykkur eftir veðri. Ef frekari fjöldatakmarkanir verða settar á samkomur en nú er, verður auðvitað að hlýta þeim.

Framvinda smíðavinnu í Múlakoti

Smiðirnir okkar hafa unnið af kappi undanfarnar vikur en nú taka þeir sér nokkurt hlé því næst er nauðsyn að mála.

Leitað er í dyrum og dyngjum að málara sem kann listina við að nota gamaldags linoleum-málningu, því varla er við hæfi að mála hús sem er byggt 1897 með plast-málningu.

En nú vil ég bjóða ykkur að ganga í bæinn.

Þið munið flest sjálfsagt eftir milljón krónu hurðinni sem var smíðuð í fyrra fyrir bíslagið  eða milliganginn á milli elsta hússins og veitingahússins. Það er sú hurð sem sést á fyrstu myndinni. Vegginn umhverfis þurfti að endursmíða og sömuleiðis loftið. Næst er ykkur boðið að ganga til stofu. Erfitt er að taka mynd af nýsmíði og endurnotun gluggaramma að innanverðu, en fallegir eru þeir. Þá kemur  hornið í stofunni, hurðin, sveigurinn umhverfis millivegginn og hvíti listinn á mótum kverkar og lofts þar má sjá móta fyrir útlínum viðarteinungsins – að hluta til. Næsta mynd sýnir loftið í ganginum frá stofu í hin herbergin. Þar stóð ekki steinn yfir steini þótt ég ætti frekar að segja spýta yfir spýtu. Litbrigði loftapanelsins segja frá útsjónarsemi smiðanna okkar við að endurnota það sem heillegt er. Við endum á baðstofunni. Þar þurfti líka að endurnýja mörg spjöld í „stokkaklæðningunni“.

Góð kveðja frá Múlakoti

Tjaldakveðja frá Múlakoti

Við hjónakornin höfum verið með böggum hildar að undanförnu. Fyrir liðlega hálfum mánuði fundum við tjaldshræ úti við hlið, sem fallið hafði fyrir óvinarhendi. Þetta var ómerktur fugl þannig að ekki var það hún Sokka okkar, enda sáum við hana vestast á túninu nokkru seinna. En hún var sárasjaldan kringum húsið eins og hennar var vani, sást samt svona hér og þar, alltaf ein.Ég var farin að semja jarðarfarargrein í huganum, en ekkert varð úr skrifum.

Í gær heyrðum við svo skrítin og skemmtileg hljóð utan af stétt og viti menn, þarna var Sokkaparið okkar komið með tvo úfna, en stóra dúnhnoðra með sér.

Það eru allt önnur hljóð í tjaldinum þegar hann „talar“ við ungana en þegar hann skammar nágrannana, alveg dásamlegt.

Í gær hélt fjölskyldan til á stéttinni umhverfis húsið, enda höfum við í mörg ár talið að hreiðrið sé á grasþakinu. Foreldrarnir voru báðir á sprettinum að bera í ungana fæðu, komu hlaupandi með stóra maðka lafandi niður úr gogginum, sem þeir héldu svo niðri meðan unginn fékk sér bita. Stórskemmtilegt.

Í morgun var herra Sokki einn á ferð með annan ungann sem hann mataði í gríð og erg. Ótrúlegt en satt, þá náði ég bærilegum myndum út í gegnum rúðuna.

Aðalfundarboð

Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti

Aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti vegna starfsársins 2019 verður haldinn að Kvoslæk í Fljótshlíð föstudaginn 19. júní klukkan 17.00. Dagskrá samkvæmt samþykktum félagsins:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Önnur mál.

Að loknum aðalfundarstörfum verða kaffiveitingar,

Með félagskveðju
Björn Bjarnason
formaður

Góðar gjafir

Nú má eiginlega segja að sjaldgæfir séu hvítir hrafnar. Það hefur ekki verið gestkvæmt í Múlakoti að undanförnu enda varla við öðru að búast nú á tímum ferðatakmarkana. Þeim mun ánægjulegra  er að fá góða gesti. Þann 12. maí komu tvær sómakonur í heimsókn, þær Ólöf Kristófersdóttir á Útgörðum og Helga Hansdóttir á Hvolsvelli.

Helga kom færandi hendi. Hún afhenti okkur tvo muni til varðveislu í Múlakotsbænum, kleinujárn og ljósmynd. Báðir munirnir eiga sér sína sögu. Ljósmyndin er af Reyni, syni þeirra Láru Eyjólfsdóttur og Ólafs Túbals, en Reynir var síðasti hefðbundni bóndinn í Múlakoti vesturbæ. Reynir gaf Helgu þessa góðu ljósmynd, sem var tekin þegar hann var tæplega fimmtugur. Síðasta hálfan annan áratuginn bjó hann einn í Múlakoti, en hann var duglegur að heimsækja fólk, átti fastan vinahóp sem hann heimsótti reglulega og var Helga í þeim hópi. Í einni heimsókninni færði hann Helgu kleinujárnið. Þetta var gamla kleinujárnið frá Múlakoti og bar með sér að það hafði verið mikið notað. Skaft kleinujárnsins er úr tré. Ef myndin er skoðuð vel sést að úr því hefur eyðst. Þetta er músarnart, en af skaftinu hefur verið bragð og ilmur af öllu því deigi sem það komst í snertingu við í Múlakoti. Hjólið er líklega úr messing, mjög fallega mótað en dálítið slit komið í öxulinn, enda mikið notað, bæði var  mikið bakað í Múlakoti á tímum hótelrekstursins og eins notaði Helga það við starf sitt í eldhúsi Grunnskólans á Hvolsvelli. Þar starfaði Helga lengi og var elskuð af skólabörnum sem leituðu mikið til hennar ef á bjátaði. Helga er ákaflega barngóð og bóngóð og næstum er unnt að segja að hún hafi verið á við heila félagsmálastofnun á Hvolsvelli. Hún er mikill safnari, vettlingasafn hennar er frægt og hefur verið til sýnis víða um land. Eins hefur hún safnað miklu af handavinnu, sem hún gefur ef hún telur að munirnir eigi betur heima hjá öðrum en henni sjálfri. Eins heldur hún utan um ýmsa smáhluti og þetta vissi Reynir, taldi hana vel að kleinujárninu frá Múlakoti komna og bað hana að njóta vel. Nú er járnið komið aftur að Múlakoti.

Myndin af Reyni verður sett upp í gamla herberginu hans á loftinu yfir veitingasalnum. Þegar er búið að endurnýja gluggann á því herbergi og þegar fjárhagurinn leyfir verður farið í viðgerðir á því húsnæði öllu.

Góð kveðja frá Múlakoti

Gæsagangur

Að morgni 10. maí 2020 var ég á leiðinni út í Guðbjargargarð í hreinsunarvinnu, þegar ég rak augun í gulhvíta „hrúgu“ á miðri grasflötinni ofan við hús okkar. Ó já, þetta var sem okkur sýndist, myndarlegt gæsaregg.

Í sömu svipan rifjaðist upp hvernig  við gerðumst gæsabændur. Þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa síðla apríl 2010 sendi hann annað veifið öskugusur yfir Fljótshlíðina og fengum við okkar hluta af því. Farfuglarnir voru sem óðast að koma til landsins og létu eitt eldgos ekki trufla sig – og þó. Gæsirnar sem venjulega höfðu aðeins viðkomu á Múlakotstúnunum virtust ekki komast á hefðbundnar varpstöðvar, en settust að hjá okkur. Það var dapurlegt að sjá þessa stóru fugla vappa um öskugráa og miður sín. Nokkur gæsapör komu sér samt vel fyrir í brekkunum, verptu og komu upp ungum. Já, það var ekki mikið unnið við garðahreinsun vorið 2010, þeim mun meira horft út um gluggana á eldgosið.

 Næstu árin fannst okkur sem varppörum fjölgaði og svo kom að tvisvar fundum við heil egg heima við hús okkur til mikillar furðu, því ekki var um  neina hreiðurgerð að ræða þar og varla höfðu gæsirnar misst egg á flugi.

Skýringuna fengum við fyrst nokkrum árum seinna, þegar við vorum að gróðursetja á skógræktarsvæðinu okkar niðri á aur. Við áttum mjög fallegan og gæfan íslenskan hund, hann Mána.

Hann fylgdi okkur alltaf eftir og gegndi vel öllu tiltali. Eitt skiptið brá þó öðru við. Hann reisti sig upp og starði einbeittur fram fyrir sig og tók síðan strikið burtu og lét sem hann heyrði ekki köllin í okkur.

Eftir dágóða stund kom hann til baka en nú var sem hann læddist áfram, nærri skreið. Eitthvað var hann með í kjaftinum og viti menn, hann lagði heilt gæsaregg í lófana á mér. Hvernig honum tókst að ná utan um eggið án þess að brjóta það skil ég ekki, því gæsaregg eru um 10 cm á lengd og 6 á breidd.

Nú skildum við hvernig stóð á gæsareggjunum heima við hús, einmitt á stöðum þar sem hundurinn lá oft, hann var að draga björg í bú, en snerti ekki við egginu sjálfur þótt það lægi úti dögum saman.

En þetta var ekki skýringin á egginu sem við fundum núna, því Máni blessaður er löngu genginn á vit feðra sinna. Eggið var líka opið og búið að hreinsa úr því hverja örðu. Þarna hefur líkast  til verið hrafn á ferðinni þótt mér finnist heilt gæsaregg vera ótrúlega stórt í hans gogg, því varla hefur refur verið á ferðinni svona heima við hús.

Já, gæsabændur erum við orðin núna því milli 10 og 20 pör eru orðin fastagestir hérna, eftir gosið „góða“.